Frábær hvítvín frá Leflaive

Fyrir tæpum aldarfjórðungi, nánar tiltekið árið 1984, ákvað Olivier Leflaive að slíta sig frá fjölskyldufyrirtækinu Domaine Leflaive og hefja framleiðslu á vínum undir eigin nafni. Þetta var stórt skref, enda Domaine Leflaive með virtari framleiðendum í Bourgogne. Hann hefur hins vegar haslað sér völl sem hágæðaframleiðandi og það er mikill fengur í því að vín hans skuli nú fáanleg á Íslandi í fyrsta skipti. 

Olivier Leflaive „Les Sétilles“ 2006 er hvítvín sem ber einföldustu appelation-skilgreininguna í Búrgundí eða „AOC Bourgogne“. Þetta er engu að síður hörkuvín. Djúpur reykblandaður sítrusávöxtur, vanilla og smjör, þétt og feitt í munni. 2.090 krónur. 90/100

Olivier Leflaive „Les deux Rives Chablis“ 2006 er toppklassa Chablis. Þurr steinefnakenndur ilmur, brennisteinn, sítrónubörkur og fíkjur. Þétt og langt, straumlínulagað og tignarlegt. 2.190 krónur. 92/100

Annar ungur Frakki sem hóf eigin rekstur um svipað leyti er Pascal Jolivet. Fjölskylda hans hafði verið tengd vínframleiðslu í Loire um langt skeið en átti engar eigin ekrur. Pascal Jolivet starfaði í fyrstu fyrir kampavínshúsið Pommery en stofnaði sitt eigið fyrirtæki í Poilly-sur-Loire árið 1982. Reksturinn var smár í sniðum í fyrstu en smám saman fór hann jafnt sem orðspor vínanna að vinda upp á sig. Í dag er Pascal Jolivet einn virtasti vínframleiðandi Sancerre og Pouilly-Fumé-vína en í þessum tveimur þorpum, Sancerre og Pouilly, nær Sauvignon Blanc hvað hæstum hæðum í heiminum.

Pascal Jolivet Pouilly-Fumé „Les Grivottes“ 2007 er gott dæmi um hvers vegna þessi vín hafa náð jafnmiklum vinsældum og raun ber vitni. Fersk angan af ferskjum, greip, stikilsberjum og kryddjurtum, jafnvel bergamot eins og í Earl Grey-tei. Þétt og ferskt, langt og elegant. 2.900 krónur. 91/100

Höldum okkur í Frakklandi og förum suður í Rhone-dalinn en þaðan kemur létt og lipurt rauðvín sem fer vel með léttum sumarmáltíðum.

Joseph Pellerin Cotes-du-Rhone 2006 er milt – það er hreinn og tær rauður berjaávöxtur og rabarbari, einfalt, mjúkt og þægilegt. 1.590 krónur. 88/100

Og við leyfum einu góðu Nýja-heimsvíni að fljóta með en það kemur frá Suður-Afríku. Glen Carlou Tortoise Hill 2005 er þægilegt og sumarlegt rauðvín, þétt með plómusultu og bláberjum í nefi, vel uppbyggt og þokkafullt. 1.740 krónur. 88/100

 

 


 

Deila.