Antinori á flugi

Vínin frá Piero Antinori eru í uppáhaldi hjá mörgum, þar á meðal mér. Ég átti langan hádegisverð með Antinori í Flórens sumarið 2000 þar sem kostur gafst á að ræða við hann um víngerð á Ítalíu og víðar. Það viðtal er nú loks komið inn á Vínótekið og má lesa það með því að smella hér. Þá var búgarður hans Castello della Sala í Úmbríu einn af þeim sem ég heimsótti á flakki um Ítalíu sumarið 2006 en frásögn af þeirri heimsókn má lesa hér.

Nýjustu árgangarnir af súpervínunum hans Tignanello og Solaia eru nú komin í sölu víða um heim og fá þau hrikalega góða dóma. Solaia 2006 fær þannig 94 punkta hjá Robert Parker en 97 hjá Wine Spectator. Tignanello fær 92 hjá Parker og 93 hjá Wine Spectator. Chianti-vínið Marchese Antinori fær svo 91 punkt hjá báðum.

Því miður verður Solaia alltaf dýrari og dýrari, en verðin fóru að skjótast verulega upp á við eftir að vínið var á sínum tíma valið vín ársins hjá Wine Spectator. Solaia 2006 fæst í fríhöfninni og kostar þar 19.999 en Tignanello kostar 6.699. Okkur Íslendingum til „huggunar“ má þó geta þess að Solaian kostar um 160 evrur í Evrópu eða rétt um 30 þúsund kall flaskan.

Marchese Antinori er fánlegt bæði í fríhöfn sem vínbúðum. Kostar 2.449 í fríhöfninni en 3.449 í vínbúðunum.

 

Deila.