Beaujolais

Sú var tíðin að vínin frá Beaujolais voru með þeim vinsælustu á Íslandi. Síðustu árin hafa þau hins vegar varla sést í vínbúðunum og raunar átt verulega undir högg að sækja víðar en hér. Að miklu leyti er það vínbændum í Beaujolais að kenna. Löng hefð er fyrir því að framleiða þar ung vín sem eru seld nokkrum vikum eftir uppskeru undir heitinu Beaujolais Nouveau. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar voru þau mikið í tísku og ýttu framleiðendur í Beaujolais óspart undir með stöðugt aukinni framleiðslu á Nouveau. Skyndilega datt botninn hins vegar úr tunnunni, eftir því sem framleiðslan jókst urðu vínin líka stöðugt verri og ómerkilegri.

Neytendur misstu áhugann á Nouveau og eftir sátu þeir í Beaujolais með ónýta ímynd. Í hugum fólks um allan heim var nefnilega komið samansemmerki á milli Nouveau-vínanna sætu og berjamiklu og Beaujolais.

Þvílík synd. Vínin frá Beaujolais geta nefnilega verið alveg hreint yndisleg á sínum eigin forsendum. Þau eru unnin úr Gamay-þrúgunni, sem er náskyld Pinot Noir, en léttari og frískari. Beaujolais-vínin eru unaðsleg matarvín ef þau eru vel gerð og að ég minnist nú ekki á ef um er ræða vín frá einhverju af þorpunum sem mega ljá víninu nafn sitt, s.s. Brouilly, Fleurie, Saint-Amour eða Moulin-á-Vent.

Nú eru Beaujolais-vín aftur komin í hillurnar  líkt og lesa má um með því að smella hér og því kjörið tækifæri að enduruppgötva þessi ljúfu vín.

Deila.