Spaghetti Vongole

Skelfiskur nýtur mikilla vinsælda við Miðjarðarhafið og í sjálfu sér er ekkert sem mælir gegn því að við tökum upp sömu siði. Sjórinn við Ísland er fullur af skelfisk og á nokkrum stöðum við landið, s.s. í Eyjafirði, er farið að rækta hann með góðum árangri.

Spaghetti Vongole er mjög vinsæll réttur á veitingastöðum við sjávarsíðu Suður-Ítalíu, ekki síst í Kampaníu. Vongole er á íslensku kölluð freyjuskel eða venusarskel og er stundum hægt að fá hana frosna eða niðursoðna í búðum hér. Það er hins vegar hægt að nota margar tegundir af skelfisk og best að nota það sem maður fær ferskt.

Í Frú Laugu má t.d. oft fá ferskan krækling og kúskel.

Líkt og svo oft með bestu rétti ítalska eldhússins þá er þessi einfaldleikinn uppmálaður. Það mikilvæga er að öll hráefni séu fyrsta flokks.

  • 1 kíló skeljar
  • 3-4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 1/4 teskeið þurrkaðar chili-piparflögur (hot pepper eða red pepper flakes)
  • 1 búnt af flatlaufa steinselju, söxuð
  • hágæða ólífuolía
  • 500 g spaghetti eða linguini

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum

Hitið nokkrar matskeiðar af olíu, chili-flögurnar og hvítlaukin saman á pönnu á miðlungshita. Bætið skelfisknum saman við og setjið lok á pönnuna. Hristið pönnuna nokkrum sinnum og leyfið að malla í eina, tvær mínútur eða þar til skeljarnar hafa opnast.

Sáldrið steinseljunni yfir og blandið saman við pastað á pönnunni ásamt örlítilli ólívuolíu í viðbót.

Ferskt ítalskt hvítvín með, s.s. Tommasi Giuilietta, A Mano Fiano Greco, eða Kalis Chardonnay Grillo.

 

 

Deila.