Lambakjöt í kryddjurtahjúp

Það eru kryddjurtir Suður-Evrópu sem gefa lambinu bragð í þessari uppskrift: Salvía, oreganó og rósmarín. Best er að nota ferskar kryddjurtir en þurrkaðar koma einnig til greina.

  • 1 kg lambakjöt af læri
  • 3 dl brauðrasp, heimatilbúið
  • 1 lúka salvía, söxuð
  • 1 lúka rósmarín, saxað
  • 1 lúka oregano, saxað
  • 3-4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • Maldon-salt og pipar úr kvörn
  • Ólívuolía

Saxið kryddjurtirnar og hvítlaukinn og blandið saman við brauðraspið. Setjið 1 tsk af Maldon-salti saman við og hressilega af nýmuldum pipar, allt að einni matskeið. Blandið vel saman.

Penslið kjötið með ólívuolíu og veltið því síðan upp úr raspinu. Setjið á fat og eldið í 200 gráða heitum ofni í um 30 mínútur. Snúið kjötbitanum eftir helming eldunartímans.

Þessari uppskrift er einnig hægt að beita á heilt lambalæri, það eina sem breytist þá er eldunartíminn sem lengist töluvert og því gott að bæta smá vökva í fatið, 1 dl af vatni eða hvítvíni, þegar líða tekur á hann.

Skerið í sneiðar og berið fram með Provence-tómötum. Hellið örlitlu af góðri ólívuolíu yfir tómatana og kjötið.

Rauðvínið með þarf að vera kröftugt og gott. Franskt á borð við Lamothe Vincent frá Bordeaux eða þá ítalskt Toskana-vín á borð við Brolio.

 

Deila.