Hess dregur sig í hlé

Donald Hess, sem á síðustu áratugum hefur byggt upp mikið veldi gæðavínframleiðenda í fimm heimsálfum, hefur tilkynnt að hann hyggist draga sig í hlé sem forstjóri Hess-fyrirtækisins í lok júní. Hann mun þó áfram gegna stöðu stjórnarformanns.

Hess er Svisslendingur og tók við fjölskyldufyrirtækinu er faðir hans féll frá fyrir rúmum fimm áratugum. Hann byggði m.a. upp stærsta ölkelduvatnsfyrirtæki Sviss og í einni ferð á vegum þess til Kaliforníu heillaðist hann af víngerð þar. Í kjölfarið keypti hann ekrur í Napa og stofnaði fyrirtækið Hess Vineyards.

Fyrirtækjunum fjölgaði smám saman og Hess á nú einnig Peter Lehmann í Ástralíu, Glen Carlou í Suður-Afríku og Colomé og Amalaya í Argentínu.

Deila.