Þetta kartöflusalat er í anda suðvesturríkja Bandaríkjanna þar sem oft gætir áhrifa frá Mexíkó. Enda er í salatinu að finna lime, kóríander og chili, allt grunnhráefni í mexíkóska eldhúsinu.
Athugið að chili-belgurinn gefur salatinu ákveðið bit. Ef þið eruð viðkvæm fyrir sterku kryddi er auðvitað hægt að sleppa honum.
Hráefni:
- 800 g kartöflur
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 msk Dijon-sinnep
- 1 tómatur, saxaður
- 1 lúka fínsaxaður kóríander
- 1 lítill rauðlaukur, saxaður
- 1 grænn chili, fræhreinsaður og fínsaxaður.
- 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
- safi úr 1/2 lime
- 1/2 tsk cayenne
- salt og pipar
Aðferð:
Sjóðið kartöflurnar, flysjið og skerið í bita.
Blandið öðrum hráefnum saman í skál.
Bætið kartöflunum saman við.
Kælið áður en salatið er borið fram.
Þetta salat hentar vel með grilluðu kjöti og það er tilvalið að gera Kálsalat með kóríander á sama tíma. Bæði vegna þess að þessi tvö salöt smella vel saman með grillkjötinu en líka upp á nýtingu hráefna sem eru að hluta áþekk.