Matarboðið endaði með matreiðslubók

Matarboð geta verið afdrikarík. Þannig var það að minnsta kosti með matarboð sem María Björk Sverrisdóttir hélt í sumar. Það endaði með því að nokkrum mánuðum síðar var komin út matreiðslubók með uppskriftum 40 þjóðþekktra Íslendinga.

Bókin heitir Uppáhaldsrétturinn minn og kom út fyrir nokkrum dögum. Í henni er að finna uppskriftir margra þekktra Íslendinga, söngvara, fjölmiðlafólks, leikara og veitingamanna. Má þar nefna Diddú, Ladda, Egil Ólafsson, Egil „Gillz“ Einarsson, Eyvöru Pálsdóttur, Chandriku Gunnarsdóttur, Siggu Beinteins og Björgvin Halldórsson.

María Björk, sem auk þess að vera tónlistarmaður er mikill áhugamaður um mat og matargerð. Hún bjó lengi í New York og síðastliðinn vetur fór hún þangað í ferð með vinafólki, meðal annars Friðgeiri Inga Eiríkssyni, yfirmatreiðslumeistara á Hótel Holti, þar sem mörg af bestu veitingahúsum borgarinnar voru heimsótt. Það var svo eitt síðdegi í júlímánuði að Friðgeir Ingi hringir í Maríu. Hann var í fríi, sagðist vera svangur og spyr hvort að hún geti ekki boðið í mat.

María hljóp upp til handa og fóta og var í fyrstu í stökustu vandræðum með hvernig hún ætti eiginlega að elda eitthvað sem væri nógu gott fyrir Friðgeir Inga. Að lokum varð humar og nautasteik fyrir valinu og að lokinni máltíð var ljóst að eldamennska Maríu hafði slegið í gegn. „Ég var mjög upp með mér að hann skyldi vera svona hrifinn af mínum mat,“ segir María. Og til að kóróna allt þá hringir Friðgeir daginn eftir til að þakka fyrir sig og segir að eldhúsið hjá Maríu sé nú orðið uppáhaldsveitingahúsið hans.

Viku seinna hringir María og segist vera komin með hugmynd. Væri ekki sniðugt að fá þjóðþekkta Íslendinga til að koma í eldhúsið sem gestakokka? Nokkrum dögum síðar hringir hún aftur og þá hefur hugmyndin þróast enn frekar: „Af hverju gefum við ekki út bók með uppskriftum þekktra Íslendinga?“

Það var strax ákveðið að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og nú tæpum þremur mánuðum seinna er bókin komin út. „Það tóku þessu allir mjög vel,“ segir María. „Auðvitað var einn og einn sem skoraðist undan, til dæmis ónefndur útvarpsmaður sem sagði að ég vissi ekki hvað ég væri að kalla yfir mig. Það eina sem að hann kynni að matreiða væri beigla með sultu. Annar tilvonandi kandídat sagðist ekkert geta eldað flóknara en pylsu með tómat, sinnepi og steiktum lauk. Þetta var auðvitað mikil vinna að koma þessu saman enda um fólk sem hefur nóg á sinni könnu að ræða, en að endingu small þetta allt saman.“

Að lokum var búið að fullskipa liðið og eldaði Friðgeir Ingi og útfærði allar uppskriftirnar fyrir bókina. Hann segir margar uppskriftirnar hafa slegið algjörlega í gegn þegar verið var að útfæra þær og hver einasti biti verið kláraður.

Friðgeir Ingi segir að rykinu hafi jafnframt verið dustað af upphaflegu hugmyndinni um að fá gestakokk og standi til að reyna að fá 3-4 af þeim sem lögðu til uppskriftir að taka þátt í því. Raunar hafi það þegar verið ámálgað við einn uppskriftarhöfund.

Þau María og Friðgeir Ingi segja „pottþétt“ að framhald verði á og eru þau þegar farin að leggja drög að næstu bók.

Deila.