Sérrítrifli er gamaldags, sígildur eftirréttur og kom þessi uppskrift hingað til lands á fyrri hluta síðustu aldar með fjölskyldu er hafði dvalið í Bandaríkjunum.
- 3 eggjarauður
- 3 eggjahvítur
- 1 peli rjómi auk rjóma til skreytingar
- 1 msk sykur
- 3 blöð matarlím
- 1 dl sætt sérrí (Cream Sherry)
- Mulið suðusúkkulaði
- Sulta (jarðaberja eða hindberjasulta í neðsta lagið, rifsberjasulta í skreytingu efst).
- 150 g makkarónur
Grófmyljið makkarónurnar. Setjið í botninn á fallegri skál ásamt 3/4 dl sérrí, 2 msk sultu og 2 msk muldu súkkulaði.
Þeytið saman eggjarauður og sykur. Stífþeytið eggjahvíturnar. Þeytið rjómann. Blandið eggjarauðum, stífþeyttum eggjahvítunum og þeyttum rjómanum varlega saman.
Bleytið matarlímsblöðin. Bræðið í vatnsbaði ásamt 1/4 dl sérrí.
Hellið matarlíminu út í eggja- og rjómablönduna í mjórri bunu og blandið mjög varlega saman þannig að trifflið hlaupi ekki í kekki.
Setjið í skálina ofan á muldu makkarónurnar. Geymið í ísskáp og leyfið að stirðna.
Áður en trifflið er borið fram er sett á lag af þeyttum rjóma og síðan skreytt með rifsberjasultu og rifnu súkkulaði og/eða jarðarberjum.