Skelfiskur er í hávegum hafður á Ítalíu og til eru fjölmargar tegundir af pasta með skelfisk. Hér notum við ítalskar aðferðir til að elda íslenskan humar.
Uppskriftin gerir ráð fyrir Pancetta sem er áþekkt beikoni en ekki reykt og fæst nú í einhverjum búðum á Íslandi. Ef þið finnið það ekki er hægt að nota beikon.
- 20 humarhalar, eða svo
- 500 g pasta, Pappardelle eða Tagliatelle
- 1 sítróna, safinn pressaður og börkurinn rifinn
- 1,5 dl þurrt hvítvín
- 1 vænn rauðlaukur, saxaður
- 100 g pancetta (eða beikon)
- 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 1 búnt steinselja, fínsaxað
- 1 tsk chiliflögur
- ólívuolía
- salt og pipar
- Parmesan-ostur
Skerið pancetta/beikon í litla bita. Hitið örlitla olíu á pönnu og steikið pancetta-bitana á miðlungshita í um fimm mínútur. Bætið við lauknum og mýkið í 3-4 mínútur. Þá fer hvítlaukurinn út á pönnuna og honum blandað saman við laukinn í um hálfa mínútu. Setjið næst vínið, sítrónusafann, chiliflögurnar og humarinn á pönnuna. Eldið í um fimm mínútur.
Bætið steinseljunni saman við. Bætið pasta saman við humarinn. Blandið rifna sítrónuberkinum saman við og berið strax fram með rifnum Parmesan-osti og góðri ólívuolíu.
Með þessu er kjörið að hafa hágæða ítalskt hvítvín á borð við Poggio del Gorleri Pigato.