Stél á Slippbarnum

Slippbarinn á Icelandair Hotel Reykjavik Marina er einn af þeim stöðum sem hvað mestan metnað leggur í kokteila og er það ekki síst fyrir tilstilli Ásgeirs Más Björnssonar eða Ása sem þar sér um barinn. Ási var lengi á Hótel Búðum en flutti síðar til Noregs þar sem að hann opnaði kokteilbar. Þá flutti hann til Danmerkur og stjórnaði síðustu tvö árin tveimur kokteilbörum í Kaupmannahöfn, öðrum á Norrebro og hinn á Vesterbro, sem hétu Kung Fu 1 og Kung Fu 2. Áherslan þar var á japanskan mat (nema sushi) og drykki undir asískum áhrifum.

Hann ákvað að slá til þegar að hann heyrði af áherslunum á Slippbarnum og hefur þróað fram lista af drykkjum sem byggir á hinum klassíska grunni. „Við erum ekki að finna upp hjólið – en við erum að setja okkar twist á hlutina,“ segir Ási. Það séu það margar kvíslir til af kokteilum að það sé af nógu að taka og þróunin sé sú að menn sæki í upprunann, hina upprunalegu, sígildu drykki en setji þó sitt mark á þá. „Kokteilamenningin er í mikilli sókn í Evrópu og menn eru að sækja í gömlu hefðirnar. Það er stemmning í kringum þetta og fólk er forvitið og til í að prófa marga hluti.“

Meðal þeirra drykkja sem Ási hefur tekið og leikið sér með er Gimlet en í útgáfu Slippbarsins heitir hann Basil Gimlet og er kryddaður hressilega upp. Whiskey Sour er annar sígildur drykkur er byggist á bourbon sem tekur á sig alveg nýja og spennandi mynd á Slippbarnum.

Einhver vinsælasti drykkurinn á Íslandi undanfarin ár er Mojito en á Slippbarnum geta menn farið aðra leið og látið leiða sig út í Old Cuban sem er hrikalega flott útfærsla mojito-þemanu. Hreinræktaður kokteill eða eins og Ási segir: „Það er gaman að fá fólk til að prufa þennan í staðinn fyrir Mojito og upplifa það sem ég stend fyrir.“ Eftir að hafa bragðað Old Cuban er hins vegar spurning hvort að nokkur vilji fá Mojito aftur…

Á listanum eru hins vegar einnig „frumsamdir“ kokteilar á borð við T9 eða Tíní eins og hann myndi útleggjast á dönsku. Drykkur þar sem að útgangspunkturinn var íslenski birkilíkjörinn Birkir. Massaður og ferskur kokteill þar sem að sítrus, birki og bergamo búa til margslungna bragðsinfoníu.

Að sögn Ása er markmiðið að hafa seðilinn stuttan en spennandi. Á honum eru að jafnaði tíu drykkir og er seðiliin endurnýjaður á tveggja vikna fresti. Það er ekki markmið að skipta öllum drykkjum út alltaf en á móti kemur líka að „enginn er öruggur“ ef betri drykkur knýr dyra.

Deila.