Hasselback kartöflur

Hasselback kartöflur eru klassískt meðlæti með kjöti hvort sem er nautakjöti eða t.d. villibráð. Þessa aðferð við að elda kartöflurnar má rekja til Svíþjóðar en Hassaelbacken er glæsilegt veitingahús í Djurgården við Stokkhólm. Á stríðsárunum var þröngt í búi hjá Svíum sem öðrum og því þróuðu menn fram margvíslegar aðferðir við að nýta það sem þeir áttu og þá komu kartöflur oft við sögu.

  • stórar kartöflur
  • smjör
  • heimatilbúin brauðmylsna
  • salt og pipar

Flysjið kartöflurnar. Skerið raufar niður í þær með stuttu millibili án þess að skera alveg í gegn. Kartöflurnar þurfa að vera nokkuð stórar. Það er líka hægt að nota bökunarkartöflur og skera til þannig að þær verði ferkantaðar. Smyrjið kartöflurnar vel með smjöri, saltið og piprið.

Setjið í eldfast mót og bakið í um klukkustund við 220 gráður. Bætið við smjöri ef þarf, passið að þær festi ekki við botninn á mótinu. Þegar um 15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er brauðmylsnunni stráð yfir kartöflurnar og eldað áfram þar til mylsnan fer að brúnast og kartöflurnar eru fulleldaðar.

Deila.