Spaghetti all’Amatriciana

Pasta með sósu eða „sugo“ all’amatriciana er einn af þekktustu réttum ítalska eldhússins svona rétt eins og t.d. bBlognese sem Ítalar kalla reyndar ragú og Carbonara. Sósan er kennd við bæinn Amatrice sem er í Lazio-héraði, ekki langt frá Róm. Þetta er einföld sósa sem byggist á alltaf á ítölsku beikoni og tómötum. Útgáfurnar eru fjölmargar. Í Lazio er alla jafna notuð beikon-tegund sem heitir guanciale, sem er óreykt beikon úr svínakinnum. Það er hins vegar einnig hægt að nota pancetta, sem fæst t.d. í Hagkaup Kringlunni. Í neyð má nota venjulegt beikon. Í Amatrice er yfirleitt notað Spaghetti en í Róm er vinsælla að bera sósuna fram með Bucatini, sem er töluvert þykkara. Þá er hefðin sú að nota Pecorino-ost með en það má alveg nota Parmesan líka. Okkur finnst það raunar betra þótt við séum hrifin af Pecorino. Ítalir nota líka gjarnan chiliflögur (þurrkaðan chili) sem gefur smá hita og það gerum við líka hér, eins og í svo mörgum öðrum uppskriftum á síðunni.

 • 150 g pancetta
 • 1 laukur, finsaxaður
 • 1,5 dl hvítvín
 • 2 dósir tómatar
 • 1 tsk chiliflögur
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk hunang
 • ólífuolía
 • salt og pipar
 • parmesan (eða Pecorino)
 • basil

Skerið pancetta/beikon í litla bita. Hitið pönnu þar til að hún er orðin mjög heit, setjið þá pancettabitana á pönnuna og lækkið hitann niður fyrir miðlungshita. Steikið í um 3-4 mínútur. Bætið þá um 2 msk ólífuolíu út á ásamt fínsöxuðum lauk og chiliflögum. Mýkið laukinn í um 4 mínútur. Hann á að verða mjúkur en ekki að brúnast. Hellið næst hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður um helming. Þá er tómötunum bætt út á og þessu öllu leyft að malla í svona 15 mínútur á miðlungshita. Undir lokin er hunangi og papriku bætt saman við og bragðað til með góðu salti og pipar.

Sjóðið spaghetti og blandið saman við sósuna. Saxið basil og rífið niður parmesan. Setjið spaghetti í skálar eða á disk, sáldrið basil yfir og berið fram með parmesanostinum.

Hér þarf gott ítalskt rauðvín, það má t.d. mæla með Villa Antinori.

Fleiri uppskriftir að pastaréttum eru svo hér.

Deila.