Klassískt amerískt Cole Slaw – hrásalat

Stökkt og súrsætt hrásalat eða Cole Slaw (kólslo) er amerískasta salat sem hægt er að hugsa sér og þar að auki eitthvert besta salat sem hægt er að bera fram með grilluðu kjöti, ekki síst ef einhver sæta og reykur eru í maríneringunni og grillsósunni.

Cole Slaw er hægt að gera í margvíslegum útgáfum og fyrsta skrefið er að ákveða hversu fínt ekki að rífa grænmetið niður. Það er hægt að saxa það gróft með hnífi, rífa það niður á grófasta hluta rífjárnsins eða hakka í matvinnsluvél. Það hvaða leið er farin skiptir miklu máli varðandi lokaniðurstöðuna.

Það er líka hægt að stytta sér leið með því að kaupa tilbúna salatblöndu og saxa hana gróft niður.

Þá er hægt að gera Cole Slaw jafnt með eða án majonnes eða sýrðum rjóma. Í þessari uppskrift er notaður sýrður rjómi og örlítið majonnes. Með því að nota 10% sýrðan rjóma og léttmajonnes höldum við kaloríunum í lágmarki án þess að gefa neitt af ráði eftir varðandi bragðið.

  • Hvítkál 500 g sem er um fjórðungur af stórum kálhaus
  • Gulrætur 2-3 eða um 200 g
  • 1 lítill laukur eða hálfur stór
  • Sýrður rjómi 10% 2 dl
  • Léttmajonnes 2-3 msk
  • Sýrðar gúrkur, saxaðar, 3-4 msk.
  • Vínedik 1 msk
  • Sykur 1 msk
  • Sellerífræ (Celery Seeds) 1 tsk
  • Hvítur pipar ½ tsk
  • Salt 1 tsk

Skerið stilkinn af kálhausnum og hreinsið hann vel, flysjið gulræturnar og afhýðið laukin. Saxið grænmetið í þeim grófleika sem þið viljið.

Í stórri skál blandið þið saman sýrða rjómanum og majonnesinu, bætið edikinu og gúrkunum saman við og loks öllum kryddunum. Blandið vel saman og hrærið loks saxaða grænmetinu saman við.

Kælið í ísskáp áður en salatið er borið fram.

Deila.