Steingrímur bloggar; Norður og suður í Búrgund

Chablis er nyrst í Búrgund og þaðan var haldið í morgunsárið til Côte d’Or, sem er að öðrum svæðum ólöstuðum hjarta vínframleiðslunnar í Búrgund, til að heimsækja vínhúsið Domaine d’Ardhuy. Aðsetur þess er í þorpinu Corgoloin rétt norður af Beaune í einstaklega fallegu sveitasetri rétt við þjóðveginn RN 74. Steinveggurinn í kringum setrið markar af ekru sem heitir Clos de Langres og er alfarið í eigu Ardhhuy eða það sem á þessu svæði er kallað „monopole“. Flestar ekrur skiptast á margar bændur þótt þær telji ekki marga hektara.

Clos de Langres er nákvæmlega á mörkum þeirra tveggja svæða sem mynda Côte d’Or, annars vegar Côte de Nuit og hins vegar Côte de Beaune. Þetta er lítið fjölskyldufyrirtæki sem er rekið af systrum er tóku við rekstrinum eftir fráfall föðursins. Lengi vel voru þrúgurnar af ekrum vínhússins seldar til nágrannans í Chateau Cordon-André en frá árinu 2001 hafa þær systur verið að byggja upp framleiðslu undir eigin nafni og hefur vínhúsið vakið vaxandi athygli fyrir frambærileg vín.

Clive Coates, sem er sá sérfræðingur sem mesta vikt hefur þegar Búrgund er annars vegar, segir að Domaine d’Ardhuy sé „rising star“. Alls á vínhúsið um 40 hektara af ekrum sem skiptast á 38 mismunandi „appelation“-ir eða víngerðarsvæði, allt frá Puligny-Montrachet í suðri til Gevrey Chambertin í norðri. Flestir eru þó hektararnir í grennd við Clos de Langres, í Corton, Savigny-le-Beaune og Nuits-St-George.

40 hektarar þykja kannski ekki ýkja mikið víða en þetta er þó töluverð eign í Búrgund þar sem fermetraverðið er ansi hátt. Í Savigny má gera ráð fyrir að hver hektari kosti um tvær milljónir evra og í Gevrey kostar hann 4-5 milljónir evra. Þegar maður stendur uppi á Corton-hæðinni, einni af bestu ekrum Búrgund, er maður því að horfa niður á ansi marga milljarða þótt svæðið virðist ekki ýkja stórt.

Þetta – ásamt hinni flóknu erfðalöggjöf Frakklands – gerir að verkum að hver framleiðandi á oft einungis eina, tvær eða þrjár raðir af vínvið á hverri ekru. Það er því eins gott að tína rétta röð!

Kjallarinn hjá Domaine d’Ardhuy er því heldur ekki ýkja stór, enda ekki mikið um stóra kjallara hjá vínbændum á þessu svæði. Droparnir í tunnum eru hins vegar afskaplega verðmætir.

Við smökkuðum þó nokkur 2011 og 2012 af tunnu og eitthvað á annan tug eldri vína úr flöskum. Stíll vínhússins er stílhreinn, fágaður og fínlegur, gott ef það var ekki eitthvað kvenlegt við þessi vín. Gæðin virkilega stöðug og ´fin, allt frá byrjunarvínunum Bourgogne Blanc og Bourgogne Rouge upp í Premier Cru og Grand Cru-vínin frá Gevrey og Corton.  Ef eitthvað stóð upp úr í millilínunni var það mjög kröftugur og karaktermikill Nuits-St.-George og Premier Cru-vínin frá Savigny.

Domaine d’Ardhuy færði alla sína ræktun yfir í lífeflda ræktun (biodynamic) fyrir nokkrum árum og fulltrúar hússins segja að þau finni mikinn mun á vínunum. Sumt í lífefldri ræktun er lógískt, s.s. að fylgja eftir gangi himintunglanna, sem hefur jú áhrif á vatnsyfirborð jarðar og að leggja áherslu á algjörlega náttúrulegar aðferðir. Annað hljómar hins vegar óneitanlega furðulega – s.s. það að fylla horn nautgripa með kúamykju, flytja þau til Suður-Frakklands, brjóta þar niður í eins konar kompost og nota síðan sem áburð. Maður bíður bara eftir að heyra sögur um hvernig menn verði að velta sér naktir upp úr morgundögginni á ekrunum undir fullu tunglu. En… þetta er ekki í fyrsta sinn sem að maður hefur heyrt vínbændur sverja að þetta skili miklum árangri og nokkrum sinnum hefur maður smakkað vín fyrir og eftir þessa breytingu og óneitanlega er munurinn sláandi.

Frá Corgoloin var haldið niður til syðsta vínræktarsvæðisins í Búrgund rétt við borgina Macon, um klukkustundar keyrsla frá Beaune. Þar í kringum þorpin Pouilly og Fuissé er framleidd einhver þekktustu hvítvín svæðisins. Rétt eins og í Chablis er þetta gamall sjávarbotn – þarna var hitabeltisloftslag og innhaf fyrir um 150 milljónum ára – sem sést á miklum fjölda steingervinga í grjótinu. Af einhverjum ástæðum eru þetta þó ekki skeljar eins og Chablis heldur kuðungar.

Stærsta – og besta – vínhúsið á svæðinu heitir Chateau Fuissé. Það hefur verið í eigu Vincent-fjölskyldunnar um margra kynslóða skeið. Hún á alls 25 hektara af ekrum í Pouilly-Fuissé og er því stærsti landeigandinn í appelation-inni.

Um helmingur af framleiðslu Pouilly-Fuissé fer til stóru négoce-húsanna sem framleiða og selja vín af öllum svæðum Búrgund en hinn helmingurinn er framleiddur af sjálfstæðum vínhúsum. Æ fleiri þeirra leggja áherslu á gæðaframleiðslu og rétt eins og gerðist í Côte d’Or fyrir nokkrum áratugum ákveða æ fleiri vínbændur að hætta að selja til négoce-húsanna og framleiða þess í stað undir eigin nafni.

Philippe Vincent stjórnandi Chateau Fuissé fer með okkur upp á ekrurnar fyrir ofan Chateau Fuissé og þar smökkum við fyrstu þrjú vínin, sem gefur manni mjög góða sýn á þann margbreytileika sem Pouilly-Fuissé og Chateaude  Fuissé geta búið yfir.

Vínin þrjú koma af þremur ekrum sem liggja í einni samfellu austur af húsinu. Fyrst Les Combettes sem snýr í norðaustur og fær því minnstu sólina, fínlegt vín sem er lítið eikað. Næst Les Clos sem er beint upp af húsinu og síðan Les Brulées sem snýr í suðaustur og er sú ekra sem fær mestan sól og hita. Jarðegssamsetningin er líka ólík og nálgunin í víngerðinni líka. Allt frá því að nota nær enga eik í Les Combettes yfir að láta Les Brulées gerjast alfarið í nýrri eik. Fljótt á litið virðist þetta vera ein ekra en þarna er um að ræða þrjú mjög góð en gerólík vín.

Mest selda vín Chateau Fuissé heitir Téte de Cru og er blanda af þrúgum af 50 mismunandi ekrum og eitthvert besta vínið – áður en maður fer í einnar ekru vínin – er vieilles vignes – vín gert úr þrúgum af gömlum vínvið.

Philippe leggur mikla áherslu á að vínin af þessu svæði þoli lengri geymslu en flestir átta sig á. Hann dregur fram eldri og eldri flöskur og við endum á Saint Veran frá 2003 og 1993. Hið síðarnefnda orðið nokkuð þroskað en 2003 ennþá ótrúlega ferskt jafnt í lit, nefi sem bragði.

Chateau Fuissé reynir að halda ákveðnum hluta af framleiðslunni eftir á hverju ári og geyma til að geta selt eldri árganga og segir Philippe að um 60% séu að jafnaði seld strax en afgangurinn síðan í skömmtum.

Deila.