Haukur Leifsson bloggar: Belgískur Blonde

Það er ákaflega skemmtilegt þegar aðrir bjórar en lager bjórar fá veglega umfjöllun í fjölmiðlum. Það hefur farið mikið fyrir markaðsetningunni á Grimbergen og smakkaði greinarhöfundur ölið.

Grimbergen er svo kallaður „abbey“ bjór. Það skal skýrt tekið fram að ekki má misskilja það fyrir klausturbjór (Trappist). Munurinn á „Trappist“ og „Abbey“ er sá að sá fyrrnefndi er bruggaður af munkum en sá síðarnefndi er bjór sem er bruggaður í bruggsmiðjum sem kenna sig við gömul klaustur og ákveðinn ágóði af hagnaði renna til góðgerðamála á vegum kirkjunnar í flestum tilvikum.
Grimbergen Blonde er hinn fínasti belgíski „blonde“ bjór, en „blonde“ er yfirleitt notað yfir gulleitt öl í Belgíu, oftast í kringum 6-7% í áfengismagni. Hér eru miklir bananar og ávextir í nefi og finna má örlitla sætu á tungu. Það má segja að Grimbergen Blonde sé ótrúlega fínn „sólpallabjór“. Hann er frekar áreynslulaus en í senn meiri en hinn hefðbundni lager og fullkominn bjór fyrir fólk sem vill e.t.v. feta sig áfram í átt að öðrum bjórtegundum en hinum hefðbundna lagerbjór.

Einnig er fáanlegur hér á landi Grimbergen Doublée sem er „dubbel“ bjórinn frá Grimbergen. Belgískur „Dubbel“ er yfirleitt í kringum 7%, með mikinn malt karakter ásamt keim af ávöxtum.
Deila.