Grilluð bleikja með farrosalati

Við notuðum bleikju þegar að við elduðum þessa uppskrift en það má allt eins nota laxaflök. Þessi mariniering er alls ekki síðri þegar að laxinn er annars vegar. Með bleikjunni gerðum við sumarlegt farro-salat. Farro er forn korntegund frá Miðjarðarhafinu og það má fá heilt farro í t.d. Frú Laugu og Kosti. Það er líka hægt að nota bygg í staðinn fyrir farro.

Marinering

 • 1 dl sojasósa
 • 1 dl ólífuolía
 • 1 dl púðursykur
 • 3-4 pressaðir hvítlauksgeirar
 • safi úr hálfri sítrónu
 • salt og pipar

Blandið öllu saman í poka. Látið flökin liggja í marineringunni í ísskáp í 30-60 mínútur.

 

Farro-salat

 • 1 sellerístöngull, skorinn í tvennt
 • 1 gulrót, skorin í tvennt
 • 1 laukur, skorinn í tvennt
 • 2,5 dl farró
 • 8 dl vatn
 • 1 lúka saxað basil
 • 2 plómutómatar, saxaðir
 • 1/2 gúrka, söxuð
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Hitið olíu í þykkum potti. Brúnið lauk, gulrót og sellerístöngul í 3-4 mínútur. Setjið farro út í og veltið um í nokkrar mínútur. Hellið vatninu út í, leyfið suðu að koma upp, lækkið hitann og látið malla þar til að vatnið hefur gufað upp.  Takið þá grænmetið upp úr pottinum og leyfið korninu að kólna.

Bætið basil, tómötum og gúrku saman við. Blandið hágæða ólífuolíu saman við. Saltið og piprið.

Chardonnay hentar vel með, t.d. Jacob’s Creek Winemakers Reserve.

Deila.