Sagrantino er rauðvínsþrúga frá Úmbríu á Ítalíu sem er farin að vekja vaxandi athygli alþjóðlega, ekki síst fyrir tilstilli vínanna frá Arnaldo-Caprai eða öllu heldur þessa tiltekna víns – Collepiano. Yfirleitt er Sagrantino blönduð Sangiovese í vínunum Rosso di Montefalco en í Collepiano frá Caprai stendur hún ein, tignarleg og mikil.
Þetta er stórt og mikið vín, dökkt á lit, eikin er áberandi í nefi, enda vínið geymt á tunnum í tæp tvö ár áður en að það fer á flösku. Vanilla, reykur/viðarkol, í bland við dökkan berjamassa þar sem svört ber, krækiber, sólber og bláber eru ríkjandi. Tannískt í munni, töluvert kryddað, langt og með góðan sýrustrúktur sem gerir þetta að mögnuðu matarvíni. Mæli eindregið með umhellingu á þessu víni, þannig nýtur það sín til fulls.
6.670 krónur.