Kjúklingalæri í Marinara-sósu

Marinara-sósa er suður-ítölsk að uppruna og byggir alltaf á tómötum, lauk, hvítlauk og kryddjurtum. Hún er gífurlega vinsæl í amerísk-ítalska eldhúsinu og hugtakið „marinara“-sósa er komið þaðan. Ítalir kalla sósur úr tómatagrunni yfirleitt sugo di pomodoro. Oft er víni og chili bætt við eins og við gerum hér og einnig eru til útgáfur þar sem t.d. kapers og ólífur eru notaðar.

Oft veldur nafn sósunnar misskilningi og menn telja að í henni sé sjávarfang. Hin rétta þýðing á heitinu væri hins vegar líklega „sósa að hætti sjómanna“ en ein kenningin er sú að þetta sé pastasósan sem var elduð fyrir sjómennina í Napólí þegar að þeir komu aftur til hafnar.

Þessi kjúklingauppskrift byggist á einfaldri en unaðslegri marinara-sósu. Við mælum með því að nota kjúklingalæri frekar en bringur enda eru þau bragðmeiri og betri en bringurnar.

  • 600 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2 laukar, fínsaxaðir
  • 4-6 fínsaxaðir hvítluksgeirar
  • 2 dl hvítvín
  • 5 dl Tómatapassata (ítalskt tómatamauk)
  • 1 tsk chiliflögur
  • 1 lúka basil, saxað fínt
  • 1 lúka flatlaufa steinselja, söxuð fínt
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið kjúklingalærin í litla bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana í um fimm mínútur. Veltið þeim reglulega um með sleif. Bitarnir eiga að taka á sig smá lit. Saltið og piprið. Takið af pönnunni og geymið.
Bætið smá olíu út á sömu pönnuna ef þarf og mýkið síðan laukinn og hvítlaukinn í 4-5 mínútur. Hellið hvítvíninu út á og notið það til að skafa upp skófarnar á pönnunni með sleif. Setjið næst tómatamaukið út á og leyfið sósunni að malla í um 15 mínútur. Þá er kjúklingabitunum og safanum sem kann að hafa lekið af þeim bætt út í og leyft að malla með sósunni í aðrar 15 mínútur. Bætið nú steinselju og basil við og leyfið að malla með í fimm mínútur í viðbót eða svo. Bragðið til með salti og pipar.

Berið fram með pasta (Spaghetti, Linguini eða Tagliatelle) og nýrifnum parmesan.

Gott ítalskt rauðvín smellur að þessu. Tilvalið er að velja t.d. suður-ítalskt vín á borð við hið frábæra LIbrandi Ciró

Deila.