Kartöflur eru veislumatur

Kartöflur þykja oft einföld fæða en þær er hægt að útfæra á nær óendanlega vegu og eru fjölbreytt og gott meðlæti með margvíslegum mat, kjöti, fiski, hversdagsmat, grillmat, veislumat.

Hér höfum við tekið saman nokkrar klassískar kartöfluuppskriftir fyrir þá sem eru að leita að góðum hugmyndum að meðlæti.

Fyrsta ber auðvitað að nefna kartöflumúsina sem oft er fullkomið meðlæti í sínum einfaldleika, t.d. með andarbringum eða nautasteik. Uppskrift að hinni fullkomnu kartöflumús má finna hér. Það er síðan hægt að gera margvísleg afbrigði af músinni, t.d. með því að bæta fínt saxaðri steinselju saman við. Þá er hægt að gera hana með beikonbitum og bökuðum hvítlauk eða  bæta feta osti saman við og breyta kartöflumúsinni í fetamús.

Annar flokkur kartöfluuppskrifta eru gratíneraðar kartöflur, niðursneiddar og bakaðar í vökva, t.d. rjóma og með osti. Klassíska útfærslu af kartöflugratíni má finna hér. Það má svo gera ýmsar útfærslur við þetta stef eins og í kartöflugratíni í anda Miðjarðarhafsins. Timjan-kartöflurnar eru rjómalaus útgáfa af gratíni og parmesan-kartöflurnar eru eldaðar í formi fyrir hvern gest fyrir sig.

Kartfölusalöt eru síðan í miklu dálæti hjá mörgum. Vinsælasta kartöflusalatið okkar er geggjaða kartöflusalatið enda stendur það svo sannarslega undir nafni og vel það. Það er líka hægt að baka kartöflurnar sem notaðar eru í salatið. Allar uppskriftirnar okkar að kartöflusalati má nálgast hér.

Svo eru það kartöfluréttirnir sem eru eldaðir á pönnu. Til dæmis steinseljukartöflur og kartöflur sarladaises. Og svo auðvitað dillkartöflur.  Þrír magnaðir réttir. Að maður gleymi nú ekki frægustu pönnukartöflum allra tíma – Rösti-kartöflunum.

Loks eru það klassíkerarnir með veislumatnum, villibráðinni, lambinu eða nautasteikinni. Hver elskar ekki sænsku Hasselback-kartöflurnar, glæsilegar á hvaða veisluborð sem er rétt eins og hinar frönsku Duchesses-kartöflur eða þá bara fullkomnar franskar kartöflur. Að maður nefni nú ekki skotheldar brúnaðar kartöflur.

 

Deila.