Montes Purple Angel 2011

Carmenere er þrúga sem kemur upprunalega fra Bordeaux. Hún fluttist yfir til Chile á þar síðustu öld líkt og aðrar þekktar franskar þrúgur en gleymdist svo. Lengi vel voru Carmenere-þrúgurnar frá Chile seldar sem Merlot en þegar að menn skyndilega uppgötvuðu að stór hluti af Merlot-ekrunum væri í raun Carmenere fóru menn að horfa á hlutina öðrum augum. Á síðustu árum hefur Carmenere verið að sækja í sig veðrið og  er orðin ein athyglisverðara þrúga Chile.

Purple Angel er eitt af toppvínum Montes, þessi árgangur er 92% Carmenere en afgangurinn af blöndunni er Petit Verdot, enn ein Bordeaux-þrúgan.

Þetta er eiginlega ótrúlegt vín. Ekki dæmigert Chile, sækir afskaplega mikið til Bordeaux, en líka til Napa en er samt afskaplega mikið Chile. Rauður og svartur ávöxtur, en það er samt ekki ávöxtur sem er dómínerandi, mjög eikað en samt er eikin ekki yfirþyrmandi, mjúk berjasulta,  þroskuð kirsuber, vindlakassi, mokkakaffi, í munni tannin sem þurrka gómin en eru samt mjúk, langt og mikið. Þetta er vín sem hægt væri að geyma í mörg, mörg ár, en hvers vegna, það er ótrúlega neysluhæft núna. Frábært matarvin.

6.498 krónur.

 

Deila.