Það er alltaf ákveðin nostalgía bundin við rækjukokteilinn. Þetta er forréttur sem naut gífurlegra vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum og var fastur liður á matseðlum flestra veitingahúsa. Í Bandaríkjunum er „shrimp cocktail“ gerður með risarækjum sem bornar eru fram með rauðri „cocktail“-sósu sem yfirleitt samanstendur af chili-sósu, tabasco, worchester og smá sítrónu.
Evrópski rækjukokteillinn er hins vegar upprunalega frá Bretlandi og þar er notaðar rækjur (prawns) eins og við þekkjum þær sem bornar eru fram með sósu sem heitir „Marie Rose“ en sú sósa er einnig stundum kölluð „kokteilsósa“. Breska matarkonan Fanny Cradock, sem hafði gífurleg áhrif á breska matargerð á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina er yfirleitt talinn höfundur þessarar sósu. Marie Rose sósa er síðan auðvitað náskyld Þúsundeyjasósunni.
Við gerum okkar Marie Rose-sósu fyrir rækjukokteilinn svona:
- 2 dl heimalagað majonnes
- 1-2 msk sýrður rjómi
- 1,5 dl tómatsósa
- væn skvetta (eða tvær) af Worchester-sósu
- skvetta af Tabasco
- sítrónusafi
Byrjið á því að búa til majonnes. Það tekur ekki margar mínútur og uppskriftin er hér. Pískið saman majonnes, sýrðan rjóma og tómatsósu. Bætið Worchester-sósu og Tabasco saman við. Kreysið smá sítrónusafa út í og pískið vel saman. Geymið í kæli.
Setjið síðan rækjukokteilinn saman. Það er gaman að bera hann fram í kokteilglasi en auðvitað má líka hafa réttinn á diski.
Fyrst eru salatlauf sett í botninn á glasinu. Það er hægt að nota lambhagasalat, Romaine eða jafnvel saxað Jöklasalat. Þá skammtur af rækjum, sósan yfir og loks saxaður vorlaukur.