Kjúklingur grænu gyðjunnar

Græna gyðjan eða „Green Goddess“ er salatsósa sem náði miklum vinsældum í Bandaríkjunum á síðustu öld. Eiginlega er þetta tilbrigði við klassíska franska „sauce au vert“ eða græna sósu sem að upphaflega var sköpuð af kokki við hirð Loðvíks þrettánda. Sagan segir að Græna gyðjan hafi fyrst verið sett á borð í matsal Palace-hótelsins í San Francicsco árið 1923 og síðan hefur hún borist víða. Þetta er ennþá afskaplega fín dressing fyrir salöt en ekki síður góð sósa (með bleikju eða laxi) og jafnvel marinering eins og við sjáum hér.

Græna gyðjan

  • 4 dl AB-mjólk
  • 2 vænar lúkur af ferskum basillaufum
  • 1 lúka af graslauk
  • safi og rifinn börkur af einni límónu
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 2 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk nýmulinn pipar

Setjið í matvinnsluvél og maukið saman.

En þá er komið að því að gera kjúkling grænu gyðjunnar.

Skerið kjúklinginn í tvennt meðfram hryggjarbeininu og skerið það frá. Setjið kjúklingabitana í poka ásamt um 2/3 af dressingunni. Geymið restina til að nota sem sósu. Veltið um þannig að marineringin þekji kjúklinginn. Setjið í ísskáp og marinerið í að minnsta kosti 2-3 tíma. Gjarnan yfir nótt.

Takið kjúklinginn úr pokanum og hristið marineringuna af og hendið.

Setjið bökunarpappír á grind. Það er líka ágætt að hafa álpappír undir bökunarpappírnum. Setjið kjúklingabitana ofan á grindina. Eldið í 30-40 mínútur við 220 gráður.

Berið fram með sósunni. Með þessu er tilvalið að hafa grænt salat, t.d. klettasalat og Dillkartöflur.

Vitral Chardonnay

 

Með þessu er ávaxtaríkt Chardonnay fullkomið, t.d. Vina Maipo Vitral Chardonnay.

Deila.