Hildigunnur bloggar – Villisveppapasta

Lofaði þessum í gær en hafði hreinlega ekki tekið eftir því hvað þessir tveir árstíðabundnu réttir eru í raun líkir. Þessi hentar þó grænmetisætum sem kjúklingarétturinn í gær gerði víst ekki.

Villisveppapasta

100-200 g nýir villisveppir, hreinsaðir og skornir í sneiðar
smjör til steikingar
2 msk ferskt óreganó (má vera timjan)
salt
1 tsk púðursykur
1/2 tsk kálfakraftur (eða grænmetis ef vill)
1 peli rjómi
1 peli kaffirjómi
örlítið af sósujafnara ef þarf

meira salt ef þarf

Fettucine eða tagliatelle pasta
Nóg af nýrifnum parmaosti

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum.

Á meðan á pastasuðu stendur: Steikið sveppina á pönnu í smjörinu ásamt oreganóinu. Myljið yfir smá salt. Hellið rjómanum og kaffirjómanum yfir og látið suðu koma upp. Bætið kálfakrafti og púðursykri við ásamt sósujafnara eftir smekk (ekki gott að þetta verði mjög þykkt). Sjóðið saman smástund.

Látið vatnið renna af pastanu og hrærið sósunni strax saman við. Berið fram með parmaostinum. Hvítvín passar vel með þessum, en við splæstum talsvert betra víni en daginn áður, Saint-Aubin premier cru sem Vín og matur fluttu inn á tímabili. Ekki viss um að það fáist hér lengur samt.

Deila.