Rjúpa með klassískri sósu

Rjúpan er eftirsótt villibráð og hefur löngum verði á borðum okkar Íslendinga fyrir jólin. Hefðbundna leiðin er sú að sjóða rjúpurnar lengi heilar. Okkur finnst hins vegar hæfa þessu frábæra hráefni miklu betur að skera bringurnar frá og steikja.

Byrjið á því að hamfletta rjúpurnar, skera bringurnar frá og hreinsa himnuna af. Setjið bringurnar í skál ásamt.

  • fersku timjan
  • ólífuolía
  • 2 msk fljótandi hunang
  • salt og pipar

rjúpaLátið liggja í leginum á meðan að þið gerið soðið. Í soðið notum við lærið og beinskipið. Við notum ekki fóarn eða innyfli á borð við hjörtu, þótt auðvitað getið þið gert það ef þið viljið enn megnara bragð. Við notum líka hvítvín í soðið ásamt vatni sem gefur því mun dýpra bragð en ef einungis vatn er notað.

Þegar soðið er tilbúið eru smjör hitað á pönnu ásamt smá olíu og bringurnar steiktar í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Setjið þær síðan á fat og inn í 100 gráðu heitan ofn og geymið þar á meðan að þið gerið sósuna og klárið annað meðlæti.

Rjúpusoð

  • rjúpubein og læri
  • 2-3 skalottulaukar
  • 2-3 gulrætur
  • 2-3 sellerístönglar
  • 2 lárviðarlauf
  • nokkrir timjanstönglar
  • hvítvín
  • balsamedik
  • smjör og olía

Hitið smjör og olíu í þykkum potti. Saxið grænmetið mjög gróft og brúnið vel. Bætið beinunum út í og brúnið þau vel. Hellið góðri skvettu af balsamikedik í pottinn og leyfið að sjóða alveg niður. Ef þið eigið koníak eða calvados er tilvalið að bæta skvettu af því við næst með sama hætti. Þegar það hefur soðið niður er hvítvíni og vatni bætt út í pottin ca í hlutföllunum 1/3 hvítvín og 2/3 vatn, þannig að það þekji beinin alveg. Bætið við lárviðarlaufum og timjanstönglum.

Leyfið suðunni að koma upp og látið síðan sjóða rólega þar til að 3-4 dl af vökva eru eftir í pottinum. Síið soðið frá og geymið.

Rjúpusósan

  • Rjúpusoð
  • 3-4 dl rjómi
  • 2 dl rauðvín
  • gráðaostur
  • sulta
  • salt og pipar

Þegar búið er að steikja bringurnar er soðinu hellt á pönnuna ásamt víninu. Leyfið suðu að koma upp og notið sleif til að hreinsa upp skófarnar á pönnunni. Bætið rjómanum saman við og látið malla í góða stund þar til að sósan fer að þykkna. Bætið 2-3 msk af gráðaosti saman við og látið hann bráðna í sósunni. Leyfið að malla aðeins áfram. Hrærið vænni matskeið eða tveimur af sultu saman við. Bragðið til með salti og pipar ef þarf. Ef sósan verður of þykk má píska smá rauðvíni saman við.

Takið rjúpubringurnar úr ofninum. Ef einhver safi hefur lekið af þeim er honum bætt saman við sósuna. Sneiðið bringurnar niður og setjið á disk ásamt sósu.

Með þessu berum við fram:

heimatilbúið rauðvínssoðið rauðkál

Waldorf-salat

Sykurbrúnaðar kartöflur

Það er mjög gott að hella smá skvettu af rjóma saman við kartöflurnar alveg í lokin. 

Það þarf kröftugt rauðvín með rjúpunni, t.d. Terrunyo Block 27 eða Chateauneuf du Pape eða Cote Rotie frá Guigal. 

Fleiri frábærar jólauppskriftir finnið þið hér. 

Deila.