Steikt hrísgrjón að hætti Szechuan

Héraðið Szechuan í suðvesturhluta Kina er þekkt fyrir matargerð sína. Hún er bragðmikil, sterkkrydduð og hrikalega góð og eitt helsta einkenni hennar er mikið af hvítlauk, mikið af chili og síðan szechuan pipar.

Þessi uppskrift af steiktum grjónum kemur einmitt þaðan og þetta er mjög gott meðlæti með mörgum kínverskum réttum.

Szechuan-chilisósan sem hér er notuð heitir doubanjiang og er gerð úr gerjuðum baunum sem eru settar í sterkan kryddlög. Hún er oft kölluð „chili bean sauce“ eða „broad bean paste with chili“ og fæst í betri stórmörkuðum og asísku búðunum.

Byrjið á því að sjóða um 3-4 dl af hrísgrjónum. Þegar hrísgrjónin eru soðin er 1-2 msk af matarolíu hituð á pönnu og grjónin steikt í nokkrar mínútur. Takið af pönnunni og geymið.

Næst þurfum við:

  • matarolíu
  • 1 búnt vorlauk, saxið laukana
  • 1 rauðlauk, saxið laukinn
  • 2 stórar gulrætur, skerið í litla teninga
  • 1 „sóló“ hvítlauk, saxið fínt
  • 1 væn msk af doubanjiang-chilibaunasósu

Byrjð á því að setja gulrótarteningana í pott með sjóðandi vatni og sjóða í 2-3 mínútur. Síið vatnið frá og geymið.

Hitið matarolíuna á pönnu og setjið væna matsekið af Doubanjiang-chilibaunasósu á pönnuna. Hrærið um þar til að olían er orðin rauðleit. Setjið þá saxaða rauðlaukinn, vorlaukinn og hvítlaukinn á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Setjið þá gulrótarteningana út á og steikið með í smástund. Næst eru hrísgrjónin sett aftur á pönnuna.

Næst þarf

  • 1 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk sojasósu

sem er blandað saman við hrísgrjónin. Saxið niður smá vorlauk til skreytingar ef vill. Berið fram.

Fleiri spennandi kínverskar uppskriftir finnið þið með því að smella hér.

Deila.