Kung Pao kjúklingur

Kung Pao kjúklingur er einn af þekktustu réttum Szechuan-héraðsins í suðvestur Kína og eru helstu hráefnin kjúklingur, jarðhnetur, þurrkaðir chilibelgir og Szechuan-pipar. Síðastnefnda hráefnið, Szechuan pipar, er í raun ekki pipar og þetta eru ekki eiginleg piparkorn heldur þurrkuð ber af tiltekinni tegund af aski. Ég hef séð Szechuan pipar einstöku sinnum í stórmörkuðum en það getur reynst nauðsynlegt að þræða hillurnar í asísku búðunum. Það sama á við um þurrkaða chilipiparinn.

Í matargerð Szechuan eru notaðir stórir, þurrkaðir belgir, ekki þessir litlu taílensku sem eru algengari í búðum (það má þó nota þá líka). Þið getið stjórnað því hversu sterkur rétturinn verður með fjölda chilibelgja og hvort að þið brjótið þá eða steikið heila. Rétturinn verður mun sterkari ef þeir eru brotnir og litlu fræin innan í þeim þar með leyst úr læðingi. Það þarf sömuleiðis ekki að borða belgina eftir að búið er að elda réttinn – frekar en menn vilja.

Kryddlögur

 • 1/2 dl þurrt sérrí  (helst) eða hvítvín
 • 2 msk kartöflumjöl
 • 1 tsk sjávarsalt

Sósan

 • 1 dl dl sojasósa
 • 1 dl vatn
 • 1 væn msk rifinn engiferrót
 • 3-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 msk austurlenskt edik

Og síðan þurfum við:

 • 600 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1,5 dl ristaðar jarðhnetur
 • 10-20 stórir þurrkaðir chilibelgir
 • 1 búnt vorlaukur
 • 1 msk Szechuan pipar
 • matarolíu til steikingar

Blandið saman því sem á að fara í kryddlöginn. Skerið kjúklingalærin í litla bita og látið liggja í leginum í um 15 mínútur.

Blandið saman því sem á að fara í sósuna.

Hitið 3-4 msk olíu á pönnu. Steikið kjúklingabitana í olíunni þar til að þeir eru orðnir ljósir. Takið af pönnunni og geymið.

Skerið vorlaukinn í bita. Haldið grænu bitunum sér og hvítu bitunum. sér.

Steikið næst chilibelgina,  niðursneiddu hvítu bitana af vorlauknum og Szechuan-piparkornin á lágum hita í 4-5 mínútur. Bætið þá kjúklingabitunum aftur  út ásamt sósunni og hækkið hitann. Látið malla á pönnunni þar til að sósan er farin að þykkna. Bætið þá jarðhnetunum út á pönnuna ásamt niðursneidda græna vorlauknum.

Berið fram með hrísgrjónum eða steiktum Szechuan-grjónum.

Fleiri kínverskar uppskriftir finnið þið með því að smella hér.

Deila.