Peter Jakob Kühn Riesling Trocken Jacobus 2013

Jacobus var vín sem við tókum fagnandi þegar að fyrsti árgangurinn kom í búðirnar í fyrra. Þrátt fyrir að úrval vínbúðanna sé fjölbreytt þá hefur skorturinn á góðum þýskum Rínar Riesling verið æpandi og þá horfir maður auðvitað fyrst og fremst til héraðsins Rheingau. Þar eru ræktuð mörg af bestu hvítvínum heims en af ýmsum ástæðum hafa þau ekki verið á radarnum hjá íslenskum neytendum, líklega ekki síst vegna þess að allt of margir tengja þýsk hvítvín við sætleika.

Jacobus er hins vegar einmitt það sem skortur hefur verið á, afbragðsgóður, þurr Riesling. Þetta er ekki eitt af dýrustu vínunum frá Rheingau en algjörlega með þeim betri. Þýska Gault-Millau valdi þetta vín fyrir skömmu sem „Gutswein des Jahres“  end Gutswein er neðsti flokkur þýsku VDP-flokkunarinnar. Að mörgu leyti sambærilegt við franskt AOC-vín en næstu flokkar fyrir ofan eru Lagenwein og Grosses Gewachs, sem er eins konar Grand Cru.

Fallega gullið á lit, ferskur, töluvert míneralískur sítrusávöxtur og epli og perur, ferskar kryddjurtir, tært, hreint og ferskt í munni, selta, sýruríkt. Klassavín.

2.956. Frábær kaup.

Deila.