Tikka Masala á grillið og hvítlaukssmjörs Naan

Tikka Masala er sá indverski réttur sem flestir utan  Indlands tengja við indverska matargerð. Líklega varð hann hins vegar til í veitingahúsi á Bretlandi en ekki Bombay. Tikka Masala er gerður úr kjúklingabitum (tikka) sem bornir eru fram í kryddaðri jógúrtsósu (masala).  Uppskriftin að klassísku Tikka Masala sem að þið finnið með því að smella hér hefur verið gífurlega vinsæl og við ákváðum að reyna eina sumarlega útgáfu sem hægt væri að grilla á pallinum. Og auðvitað verður að bjóða upp á hvítlauks Naan-brauð með og auðvitað grillum við það líka.

Við mælum með því að nota kjúklingalæri, með beini eða úrbeinuð. Athuga bara að það þarf að grilla þau með beini aðeins lengur á óbeinum hita til að elda þau í gegn. En hvort sem að þið notið læri á beini eða úrbeinuð þarf að byrja á því að marinera kjúklinginn og það sem fer í marineringuna er:

  • 1 dós grísk jógúrt
  • 2 msk Garam Masala
  • 1 msk rifinn engifer
  • 1 lúka ferskur kóríander, mjög fínt saxaður
  • 1 rauður chili, mjög fínt saxaður, eða 1/2 tsk chiliflögur
  • 1 tsk salt

Blandið öllu saman og leyfið kjúklingalærunum að marinerast í um klukkustund.

Hitið grillið og grlillið. Penslið marineringu á bitana á meðan að þeir eru á grillinu.

Með þessu þarf að hafa hvítlauks Naan. Við notum uppskriftina okkar að grilluðu brauði en hana er að finna hér.  Mótið 4-6  Naan-brauð. Bræðið 50 g af smjöri. Bætið 2-3 matskeiðum af rifnum hvítlauk út í ásamt klípu af sjávarsalti. Penslið aðra hliðina á brauðunum og byrjið á því að grilla hana. Penslið smjöri og hvítlauk á hina hliðina áður en að þið snúið við. Penslið loks smá smjöri á brauðin áður en að þið takið þau af.

Berið fra með basmati-grjónum, naan-brauðinu og raita-jógúrtsósu. annað hvort klassískri raita eða kóríander raíta.

 

 

 

Deila.