Montes Alpha Cabernet Sauvignon 2012

Montes Alpha er gamall kunningi og hefur verið í uppáhaldi allt frá því að vínið kom fyrst á markað fyrir um tveimur áratugum. Það hefur ávallt verið í þróun hvað stílinn varðar. Það varð mikil breyting á sínum tíma þegar að vínið var gert úr þrúgum frá Colchagua-dalnum í stað Curico  og nú má greina aðra róttæka breytingu.  Frá og með 2012-árganginum sem nú er að koma má greinilega byrja að greina þær breytingar sem orðið hafa með breyttri ræktun þar sem áveita er skorin nær alveg niður. Þessi aðferð, sem kölluð er „dry farming“  hefur m.a. í för með sér að ræturnar teygja sig enn lengra niður, berjaklasarnir verða minni og  hlutfall þrúguhýðis á móti þrúguávexti fer úr 12% í 37%.

Vínið hefur dökkan, svarbláan lit, djúpur svartur ávöxtur, sólber, tóbakslauf, dökkristað kaffi, töluvert míneralískara en Alpha-vínin hafa verið, kröftugt, þétt, mjög öflug, þroskuð tannín, langt. Nautakjöt, önd, villibráð.

2.998 krónur. Frábær kaup.

Deila.