Tröllin frá Toro

Nafnið á vínhéraðinu Toro gefur strax til kynna hvers konar vín þarna eru á ferð. Toro – sem við getum þýtt sem naut eða tuddi, vín sem bera slíkt nafn hljóta að vera stór og kröftug og sú er svo sannarlega raunin.

Toro er í héraðinu Castilla y Leon í norðausturhluta Spánar, hátt uppi á sléttunum, ekki ýkja langt frá Portúgal.  Uppi á hæð sem gnæfir yfir ekrurnar á sléttunni er þorpið sem ber sama nafn, en fyrir neðan helur áin Duero áfram ferð sinni til Oporto í Portúgal þar sem að hún rennur til sjávar.

Þorpið Toro á sér merka sögu. Þarna var starfræktur fyrir háskóli Spánar áður en hann fluttist til Salamanca og kirkjan sem setur sterkan svip á þorpsmyndina er talin ein sú fegursta á Spáni í rómverskum stíl. Enda er þetta vinsæll áningarstaður á Jakobsveginum.

Vínin frá Toro hafa ávallt haft það orð á sér að vera öflug. Þrúgan sem þarna er ræktuð er kölluð Tinta de Toro, afbrigði af Tempranillo, hýðið er þykkara en í afbrigðinu í Rioja sem gerir vínin tannískari og litmeiri. Ekrur í Toro eru flestar í 700-750 metra hæð yfir sjávarmáli og loftslagið einkennist af miklum andstæðum. Á sumrin verður gífurlega heitt, hitinn oft yfir 40 gráðum en á kvöldin og nóttunni kólnar verulega, sem hefur jákvæð áhrif á þroska vínanna. Veturinn er síðan kaldur og napur þarna uppi á sléttunni.

Þrátt fyrir að í Toro hafi verið ræktuð vín úr Tinta de Toro um aldabil er þetta ekki ýkja gamalt, skilgreint víngerðarsvæði. Toro fék svokallaða „DO“ skilgreiningu eða Denmonicaion de Origen árið 1987 en þá mátti nánast telja víngerðarhúsin á svæðinu á fingrum annarrar handar.

Ferðinni er heitið til eins besta vínhús svæðisins, Finca de Sobreno. Roberto Ildefonso sem stofnaði vínhúsið hafði lengst af starfað í Rioja en fjölskyldan vildi færa út kvíarnar og leitaði að stað þar sem hægt væri að gera vín með miklum lit og miklum krafti. Þegar fjölskyldan lagði grunn að Finca de Sobreno voru einungis fimm önnur vínhús starfandi, nú eru þau 57.

Paloma Ildefonso segir fjölskylduna leggja ríka áherslu á að ná sem mestum þroska úr þrúgunum. Alls eiga þau 80 hektara af vínekrum, þar af eru 25 hektarar með lífrænt vottaða ræktun. Þessu til viðbótar stjórna þau ræktun á 100 hektörum til viðbótar hjá vínbændum sem þau eru með samninga við.

Vínin frá Finca Sobreno eru djúp og kröftug. Allt frá Roble-víninu eða „Oak Aged“, ungu víni (nú er 2013 árgangurinn í gangi) sem hefur verið geymt í hálft ár á tunnum og lífræna víninu sem er gert á sama hátt og „Oak Aged“ nema úr þrúgum af lífrænt vottuðum ekrum. Vínið er þéttara en hefðbundna vínið, hefur meira „boddí“.

Paloma segir að það hafi upphaflega ekki verið ætlunin að stunda lífræna ræktun en ákveðið hafi verið að gera tilraun. „Eftir þrjú til fjögur ár sáum við töluverða breytingu, meiri lit, meira bragð. Við erum nú að velta því fyrir okkur að auka lífrænu ræktunina. Það eru í sjálfu sér engin viðskiptatækifæri í því en við sjáum þarna tækifæri til að auka gæði vínanna enn frekar.“

Næsta stig í vínlínunni frá Finca Sobreno er Crianza-vínið, gert úr þrúgum af vínvið sem er orðinn eldri en 35 ára. Vínin eru í um 9-10 mánuði á tunnu áður en þau eru geymd á flösku og segir Paloma að einungis séu notaðar notaðar tunnur, þau vilji ekki hafa vínin of eikuð. Ávöxturinn er nokkuð þurr, kryddaður, vínið í góðu jafnvægi.

Næst kemur Especial Reserva 2010, vínviðurinn er þarna orðinn 40-50 ára og helmingurinn af víninu geymdur á nýrri eik í rúmt ár. Vínið er dökkt, djúpt, kraftmikið, þarna er töluvert af kaffi og tóbakslaufum í nefi, verulega tannískt ennþá, rífur í. Ansi ungt ennþá. Vínið er þrátt fyrir kraftinn elegant og svolítið nýjaheimslegt.

Þá er komið að toppvíninu, Finca Sobreno Ildefonso 2009. Þrúgurnar eru ræktaðar á tveimur afmörkuðum blettum þar sem vínviðurinn er 80 ára gamall. Einkenni þeirra eru þó mjög ólík segir Paloma, annar bleturinn gefur kraftinn og uppbygginguna, hinn fínleikann og „kynþokkann“.  Vínið er látið gerjast hægt og lögurinn liggur lengi með hratinu. Í flestum vínum hússins er amerísk eik ríkjandi en í Ildefonso er frönsk og amerísk til helminga. Vínið er mjög djúpt á lit og þykkt, svartur ávöxtur, brennt, reykur, mjög samþjappað og tannískt.

„Við vildum gera vín sem væri stórt í munni en hefði jafnframt góða mýkt,“ segir Paloma. „Toro-vínin snúast oft bara um kraftinn. Það fellur kannski að smekk þeirra sem búa hérna á svæðinu og eru vanir slíkum vínum. Flestum öðrum þykja hins vegar slík vín of yfirþyrmandi og mikil. Við vinnum því með mýktina ekki síður en kraftinn.“

 

 

Deila.