Haukur Heiðar: Úlfur! Úlfur!

Í annað skipti tökum við fyrir Úlf Úlf, hinn árlega Double IPA Borgar Brugghúss. Ástæðan í ár er ærin, þar sem vinsældir IPA bjórstílsins eru líklegast í sögulegu hámarki á Íslandi.

Þetta er 3. árið í röð sem Borg sendir frá sér Úlf Úlf þann 1. apríl. Hugmyndin er skemmtileg, af hverju ekki að senda frá sér ákveðna tvíræðni á degi þar sem tvíræðni er hampað? Bjórinn er afar góður í ár, og ef til vill besta útgáfa Úlfs Úlfs hingað til. Hann ber af í nefi með angan af suðrænum ávöxtum, einkum mangó og greipaldin. Í munni er hann gríðarlega léttur miðað við áfengismagn og nánast hættulegur. Ávaxtakeimurinn heldur sér og er í fínu jafnvægi við mikla beiskju.

Hann lifir lengi í munni en hver sopi kallar á annan. Hér hefur tekist vel og Úlfur Úlfur er hinn fínasti Double IPA. Hann er talsvert skýjaður og án efa fá humlarnir að njóta sín til fullnustu. Það vekur hins vegar athygli mína hvað íslensk örbrugghús virðast vera hrædd við að feta þennan stíg, þ.e.a.s að reyna að skara fram úr í að gera góðan IPA. Varla er sá maður á Íslandi í dag sem hefur ekki smakkað IPA og IPA bjórar seljast eins og heitar lummur á betri börum borgarinnar. Þegar þetta er skrifað er þetta einn af fáum Double IPA sem bruggaðir hafa verið hér á landi. Kannski er breyting í kortunum, en næst tek ég einmitt fyrir Double IPA frá Bryggjunni Brugghús.

Það er því nóg um að vera í bjórnum um þessar mundir.

Deila.