Þetta kveikir í manni

Þú kemur inn, við borðið sitja fjórir matargestir við borð. Þú horfir yfir borðið, þar bíða tilbúin kampavínsglös og í ísfötu liggur kampavínsflaska á kæli. Þetta er ein af þrautunum sem að keppendur í keppninni um besta vínþjón heims sem nú fer fram á Park Hyatt-hótelinu í Mendoza í Argentínu þurfa að ráða fram. Matargestirnir við borðið eru í raun dómarar í keppninni og þeirra er að meta hvernig þú bregst við aðstæðum. Tekur þú til dæmis eftir að í glösunum er þegar dropi af kampavíni, þau eru sem sagt skítug og þú þarft að skipta þeim út áður en þú býður „gestunum“ upp á fordrykkinn sinn. Ef engin glös væru á borðinu þyrftir þú að byrja á því að sannfæra gestina um hvað þeir ættu að fá sér, t.d. kampavín.

Það voru rúmlega sextíu keppendur frá öllum heimsálfum sem mættu til leiks í Mendoza og fulltrúi Íslands er Þorleifur Sigurbjörnsson eða Tolli sem er með reynslumestu vínþjónum Íslands og hefur starfað á veitingahúsum og hjá víninnflytjendum um árabil. Hann ákvað að slá til og taka á ný þátt í Íslandsmóti íslenskra vínþjóna fyrr í vetur og bar þar sigur úr býtum og er því fulltrúi Íslands í keppninni.

Tolli hefur varið síðustu mánuðum í stífan undirbúning. Verklega prófið sem að framan var lýst er einungis einn lítill þáttur í þeim þrautum sem lagðar eru fyrir keppendur. Þeir þurfa einnig að smakka vín blint og lýsa þeim í þaula og geta sér til uppruna þeirra ásamt nokkrum sterkum drykkjum. Sömuleiðis er lagt mjög þungt skriflegt próf fyrir keppendur þar sem enginn leið er að segja til um fyrirfram hvað verði spurt um.

Undirbúningur Tolla hefur falist í miklum lestri og glósugerð, vínþjónarnir þurfa að kunna skil á ekki bara öllu því sem að snýr að framreiðslu vínsins heldur ekki síður og kannski fyrst og fremst þurfa þeir að vera gífurlega vel að sér í öllum vínræktarsvæðum heims, niður í smæstu undirhéruð, öllum þeim þrúgum sem eru ræktaðar, ólíkum heitum þeirra og helstu framleiðendum á mismunandi svæðum.

Við undirbúninginn naut Tolli aðstoðar frá reynslumiklum íslenskum vínþjónum á borð við Ölbu E. Hough, vínþjóni Icelandair-hótelanna, en hún hefur verið keppandi fyrir Íslands hönd í síðustu þremur keppnum og er jafnframt í íslensku sendinefndinni sem kom með í keppnina.

 

„Það má samt segja að það sé engin ein leið til að undirbúa sig rétt. Fyrirfram er ekki vitað hver áherslan verður í prófunum og því þarf að undirbúa sig fyrir nánast hvar sem er,“ segir Tolli en síðustu vikur og mánuði hefur hann nýtt mestan allan frítíma sinn í að lesa, glósa og fara yfir vínfræðin. Mörg ríki taka keppnina gífurlega alvarlega og sumir keppendur eru í fullri vinnu í undirbúniningi í eitt til tvö ár fyrir keppnina.

„Þetta er búið að vera gífurlega skemmtileg og það má sega að þetta hafi kveikt verulega í manni. Nú fer maður að helga sig þessu af auknum krafti á næstu árum,“ segir Tolli sem bindur einnig vonir við að yngri kynslóðir íslenskra þjóna muni í auknum mæli kynna sér starf vínþjónsins og sérhæfa sig á því sviði.

Þrátt fyrir að hafa ekki verið einn þeirra fimmtán keppenda sem komst í undanúrslitin, en tilkynnt var um þá í kampavínsmóttöku Moet & Chandon í gærkvöldi segist hann afskaplega sáttur með frammistöðuna. „Mér gekk vel í blindsmakkinu og náði þar að negla niður rétta svarið í nokkrum tilvikum og sömuleiðis fann ég að undirbúningurinn hafði skilað sér vel í öðrum þáttum, t.d. skriflega prófinu,“ segir hann. Þá séu keppnir sem þessar ekki síst frábært tækifæri til að blanda geði við starfsbræður frá öðrum ríkjum, efla þar tengsl og skiptast á skoðunum og þekkingu sem allt skilar sér til framtíðar.

Deila.