Petit Mars er eitt af vínum vínhússins Mas de Soleilla sem að rekið er af svissnesku Wildbolz-hjónunum. Þau stunda lífræna vínrækt á um 22 hektörum á hinu magnaða La Clape svæði í Languedoc í Suður-Frakklandi, rétt við borgina Narbonne.
Þetta vín er svakalega vel gert og 2013 var gott ár á þessu svæði, ólíkt því sem almennt var raunin í Frakklandi. Það er blanda úr Syrah og Grenache með ansi ríkjandi Syrah-einkennum. Dökkur berjaávöxtur, þroskuð kirsuber, sólber, plómur, angan af garrigue, kryddjurtunum sem vaxa villtar við Miðjarðarhafið, örlítið anis og kóngabrjóstsykur. Þykkt og mjúkt, unaðslega seiðandi og mjúk tannín, djúpt og langt.
2.790 krónur. Heillaði okkur upp úr skónum. Verðið er frábært og það fær hálfa aukastjörnu og þar með fullt hús stiga fyrir stórkostlegt hlutfall verðs og gæða.
-
10