Uppskeruferð til Valpolicella í september

Hefur þig einhvern tímann dreymt um að heimsækja eitthvert af fallegustu víngerðarsvæðum Evrópu í kringum uppskerutímann, skoða vínekrur, rölta um vínkjallara þekktra vínhúsa og smakka spennandi vín? Nú er tækifærið.

Í næsta nágrenni við Gardavatnið, stærsta stöðuvatn Ítalíu, eru einhver blómlegustu vínræktarsvæði landsins og margir nafnkunnir vínframleiðendur framleiða vín á borð við Soave, Valpolicella og Amarone. Þarna er líka að finna stórkostlega matargerð og góð veitingahús á hverju strái.

Það má aðeins lesa um matarmenninguna og spennandi veitingahús á svæðinu með því að smella hér. 

Vínótek og Ferðaskrifstofa Austurlands bjóða í sameiningu þriggja daga ferð til Gardavatnsins með heimsóknum til vínbænda og framleiðenda á þessu heillandi svæði. Fararstjóri er Steingrímur Sigurgeirsson, höfundur bókanna; Heimur vínsins, Vín frá þrúgu í glas og Vín – Umhverfis jörðina á 110 flöskum. Steingrímur hefur margsinnis heimsótt vínekrur norður Ítalíu og hefur frá mörgu að segja um vínin og hefðirnar að baki þeim.

Í ferðinni munum við heimsækja nokkur af bestu og þekktustu vínhúsum svæðisins, m.a. vínhúsin Tommasi, Allegrini og Tenuta Sant Antonio.  Við munum kynnast ekrum þeirra og víngerð, ekki síst framleiðslu á hinum frægu Valpolicella og Amarone-vínum svæðisins. Við munum einnig eiga ekta ítalskan málsverð í vínhúsi með tilheyrandi vínum.

Flogið verður með kvöldflugi frá Keflavík til Mílanó þann 24. september og þaðan farið rakleiðis til Desenzano við Gardavatn þar sem gist er á hinu stórglæsilega fjögurra stjörnu hóteli Palace, sem þið getið skoðað hér.

Einum degi (26. sept.) verður varið í heimsóknir til þekktra vínhúsa og þá eru eftir tveir dagar til að njóta lífsins við vatnið. Flogið verður heim frá Mílanó að kvöldi 27. sept. og lent í Keflavík upp úr miðnætti.

Gardavatnið er einhver fallegasti staður Evrópu. Þar má reikna með bestu gerð af íslensku sumarveðri í september. Algengt hitastig yfir daginn er um 20 gráður.  Stutt er að skreppa til Veróna og lestarferð til Feneyja tekur um eina og hálfa klukkustund. Við vatnið eru ótæmandi möguleikar til að skoða og skemmta sér. Bátasamgöngur eru á vatninu og hægt að heimsækja ótal fallega bæi þar sem sagan er við hvert fótmál. Skemmtigarðurinn Gardaland er innan seilingar og þar er gríðarmikið fiskasafn.

Flogið verður út 24.september kl.15:25 frá Keflavík og lendir 21:40 í Mílanó.
Flogið verður til baka 27.september kl.22:40 frá Mílanó og lendir 00:50 í Keflavík.

Verð 169.800 ISK á mann miðað við 2 aðila. Innifalið í verðinu er flug, gisting með morgunmat, rútuferðir, heimsókn í vínhús, ein máltíð og íslensk fararstjórn.

Hafið samband við Ferðaskrifstofu Austurlands  í gegnum tölvupóst info@fatravel.is eða í síma 471 2000  til að bóka ferðina.

Deila.