Hátíðlegar hreindýrabollur

Hreindýrakjöt svíkur aldrei og það á líka við um hreindýrahakkið sem tilvalið er að nota í þessar frábæru hreindýrabollur sem að sóma sér vel á hátíðarborðinu. Við fengum að bragða á þeim í aðventuboði og það kom ekki annað til greina en að fá uppskriftina.

  • 1 kg hreindýrahakk
  • 1 lítill laukur, hakkaður smátt
  • nokkur hvítlauksrif, marin
  • 2-3 brauðsneiðar bleyttar í mjólk og mestur vökvinn svo kreistur úr
  • 1 egg
  • lítil lúka af muldum valhnetum
  • 15 einiber mulin í mortéli
  • slatti af timian og/eða salvíu
  • vel af salti og pipar

Blandið hakki, lauk, hvítlauk, brauði, eggi, hnetum, einiberjum og kryddjurtum saman í skál. Mótið í litlar bollur. Hitið olíu og smjör saman og steikið bollurnar, það gæti þurft að gera það í tveimur umgöngum. Gætið þess að steikja vel allar hliðar og klára í 180 gráðu heitum ofni í 15 mín.
img_3307Sósuna með er tilvalið að sjóða upp á pönnunni; þá er gott að setja smá af sveppum, beikoni og lauk á pönnuna fyrst, steikja skamma stund, bæta við góðu villisoði, timian, lárviðarlaufi, smá tómatmauki og rauðvíni, sjóða vel niður og krydda með salt og pipar. Fyrir þá sem það vilja er líka mjög gott að setja smá rjóma út á í lokin.

Með þessu þarf til dæmis góðar kartöflur og heimalagað rauðkál. Það þarf síðan auðvitað eitthvað kröftugt og gott rauðvín með, t.d. suður-franskt frá Rhone eða Languedoc.

Deila.