Bleikur Fíll um áramót!

Það er alltaf skemmtilegt þegar menn sleppa af sér taumunum og fara aðeins út fyrir rammann. Bjórgerð og brugg þarf ekki snúast um einhverja fullkomnun. Ímyndunaraflið má stundum leika lausum hala og menn þurfa að þora að fara ótroðnar slóðir, sama hvað fólki finnst.

Þetta hafa brugghúsin Borg og Gæðingur einmitt gert fyrir þessi áramót. Kominn er fyrsti íslenski samstarfs bjórinn og er sá bjór bruggaður í Borg Brugghúsi af Gæðing og Borg. Við gerð bjórsins hafa menn leyft sér að hafa húmor og gaman og prófað að gera eitthvað algjörlega nýtt. Afraksturinn var bleikur IPA til að drekka á áramótunum.

Í grunninn er Bleiki Fíllinn svokallaður „belgískur“ IPA, þ.e. IPA með belgísku ölgeri. Gerið bætir við kryddtónum og smá esterum. Bjórinn er einnig kryddaður með paradísarkornum sem eru fræ, oftast notuð í gin og ákavíti. Hibiskus gefur svo blómlegt yfirbragð og rauðrófan jörð og bleika litinn í bjórnum. Þessi krydd gefa bjórnum örlítið jarðkennt bragð en ávaxtakeimur af humlunum gefur þessu öllu samhljóm og á undarlegan hátt virðast öll hráefnin virka saman.

Bleiki Fíllinn er galinn bjór en hver sopi kallar á annan og er þetta virkilega skemmtileg búbót í árstíðarbundna bjóra. Vonandi verða samstarfsverkefni íslenska brugghúsa fleiri á nýju ári.

Bleiki Fíllinn fæst einungis í Fríhöfninni Keflavík og betri börum borgarinnar. Heljarinnar kynning verður einnig á bjórnum miðvikudagskvöldið 28. desember frá kl 18:00 á Micro Bar

img_0340

Deila.