Ölvisholt með Stóran Skjálfta

Það er mikil gróska í handverksbjór í dag á Íslandi og núna á þorranum keppast íslensku brugghúsin um besta þorrabjórinn.

Það er áhugavert að flest brugghúsin hafa farið vel út fyrir þæginda rammann. Borg heldur áfram að auka hróður Surtsins en Víking og Segull koma með sína fyrstu IPA bjóra. Ölvisholt gefur þeim ekkert eftir og kemur með nýjan bjór, Stóra Skjálfta.

Stóri Skjálfti er viðhafnarútgáfa af Skjálfta sem um árabil hefur verið „flaggskip“ Ölvisholts, að undanskildum Lava. Skjálfti er í grunninn svokallaður „California Common“. Lager bjór sem er gerjaður á hærra hitastigi en gengur og gerist fyrir lager bjór.

Stóri Skjálfti er frekar skýjaður, með þéttan haus og heilan helling af appelsínum, berki og greni í nefi. Hann er talsvert beiskur, í þéttari kantinum en auðveldur miðað við að vera 8.8% bjór. Maltsæta er örlítil en þetta er stór og mikill bjór.

Stóri Skjálfti kemur einungis í 650ml flöskum og er upplag afar takmarkað. Hann fær full meðmæli hjá Vínotek og ákaflega gaman að sjá Ölvisholt koma með nýjung!

Deila.