Vordagar í Búrgund

Vorið var snemma á ferðinni í Búrgúnd þetta árið. Þegar ferðast var á milli svæða var vínviðurinn kominn óvenjulega langt af stað og yfirleitt tveimur til þremur vikum á undan því sem eðlilegt telst á þessum slóðum í ljósi sögunnar. Vínræktendur voru vissulega ánægðir með þessa góðu sprettu sem gæti verið ávísun á snemmbúna og góða uppskeru en þeir voru þó fyrst og fremst áhyggjufullir. Það er margt sem getur gerst á leiðinni og í fyrra urðu heilu svæðin fyrir því að uppskeran haustsins varð nánast að engu strax á vormánuðum þegar að mikið næturfrost lagðist á tvær nætur í röð. Frostið varð verulegt undir morgun og strax um morguninn fór sólin að skína og hita upp en það er banvæn blanda. Það var því svo að þegar bændur komu út á akrana blöstu við þeim visnuð lauf, það sem hafði verið grænt kvöldið áður var nú orðið brúnt og grátt. Það er því ekki nema von að Búrgundarbændur hafi verið órólegir.

Og ekki að ósekju. Nú undir lok apríl hefur veðrið breyst og næturfrostið skollið á sem minnir helst á janúarnætur frekar en upphaf sumars. Verst hafa bændur í Champagne og Alsace orðið úti en frostið hefur líka leikið ýmsa í Búrgund grátt og menn eru ekki komnir fyrir horn enn.

En það er þó ýmislegt sem getur glatt þá sem eiga vínekrur og vínhús í Búrgund. Undanfarin ár hafa yfirleitt verið mjög góð, helst að árgangurinn 2013 hafi verið í meðallagi en þó ekki slæmur. Og allir þeir sem hafa keypt Búrgundarvín á síðustu árum gera sér grein fyrir því að framleiðendur eru að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það er ekki gefið að vera Búrgundarvinur.

Við heimsóttum tvö vínhús í þessari ferð sem gætu ekki verið ólíkari. Annars vegar einn af risunum á svæðinu sem að á mikið af ekrum og framleiðir vín af öllum helstu svæðum og hins vegar lítinn framleiðanda sem gerir vín af hjarta og sál.

Byrjum á þeim litla. Francois D‘Allaine er með vínhús sitt í þorpinu Dermigny í suðurhluta Cote-de-Beaune. Þetta er meira það sem maður myndi kalla bóndabýli en vínhús nema hvað að d‘Allaines er ekki með fjós eða fjárhús við hliðina á húsinu sínu líkt og íslenskir bændur heldur litla víngerð og vínkjallara.

Hann tók sín fyrstu skref á þessu sviði árið 1996.  Hann hafði lokið námi í hótel- og veitingaskóla en hugnaðist ekki að vinna við það. Eins og hann segir sjálfur frá þá áttu allir vinir hans sem höfðu farið að vinna sem kokkar við einhvers konar vandamál að stríða, hvort sem að þau tengdust hjónabandinu, áfengi eða heilsufari almennt. Hann hafði ungur heillast af víni er hann sem lítill snáði sat og hlustaði á samræður afa síns og frænda um vín og ákvað því að reyna fyrir sér á þessu sviði. Fyrstu árin var hann með víngerðarmann með sér en frá og með árinu 2001 hefur hann séð um alla víngerðina sjálfur. Í fyrstu taldi hann að þetta gæti ekki verið mikið mál, hann væri jú menntaður matreðislumaður, en fljótlega áttaði hann sig á því að þetta væri ekki eins auðvelt og það liti út fyrir að vera.

D‘Allaines á ekki ekrur sjálfur en hefur byggt upp sambönd í árin við vínbændur sem að hann kaupir þrúgur af ár eftir ár. Hann sérhæfir sig í vínum frá suðurhluta Búrgund, aðallega frá þorpunum í Cote-Chalonnaise og Cote-de-Beaune og leggur mikið upp úr því að ná fram sérkennum hvers undirsvæðis. Hann vill geyma vínin sín lengi á tunnu og segir að 18 mánuðir séu sá tími sem þurfi til að appelation-in eða svæðið fari að ná undirtökunum, en ekki ávöxturinn og eikin.

Vínin frá D‘Allaines hafa verið vinsæl hér á landi en það var fyrir tilstilli náfrænda hans Stéphane Aubergy sem er búsettur hér og byrjaði að flytja þau inn.

Vínhús Louis Jadot er um flest algjör andstaða. Þetta er með stærstu vínhúsum Búrgunds og fyrirtækið ræktar bæði sín vín og er það sem kallað er negociant, þ.e. kaupir þrúgur af vínræktendum, allt frá Beaujolais í suðri til Chablis í norðri. Jadot-fjölskyldan eignaðist sína fyrstu ekru, Clos de Ursulines, í hlíðinum vestur af Beaune árið 1826 og fór smám saman að færa út kvíarnar. Þegar enginn úr fjölskyldunni var lengur til staðar til að taka við rekstrinum tók Andre Gaugey, sem verið hafði stjórnandi vínhússins, við taumunum. Bandaríska Koch-fjölskyldan, sem hafði verið umboðsaðili Jadot í Bandaríkjunum eignaðist fyrirtækið á síðustu öld en það er enn fulltrúi Gaugey-fjölskyldunnar sem stýrir fyrirtækinu.

Jadot  á um 60 hektara af ekrum í Búrgund, fyrst og frest ekrur sem eru flokkaðar sem Premier Cru og Grand Cru. Það þætti ekkert afskaplega stór eign í Bordeaux en í Búrgund er það meira en flestir geta státað sig af. Víngerðin sjálf var lengi í gömlu klaustri í hjarta Beaune, Couvent de Jacobins og þar undir er enn kjallarinn þar sem að gersemar fyrirtækisins eru geymdar, mörg hundruð metrar af þröngum göngum þar sem flöskur sem spanna allt til nítjándu aldar er staflað upp eftir veggjum.

Víngerðin er hins vegar komin í nýtt og glæsilegt víngerðarhús í útjaðri Beaune sem Jacques Lardiere, víngerðarmaður Jadot og einn sá virtasti í Búrgund, hannaði eftir sinni hugmyndafræði um víngerðina. Vínin hafa mikla lengd, Lardiere stoppa helst eplasýrugerjunina (malolactic) í miðjum klíðum til að halda í ferskleika vínanna.

Jadot er með gífurlega sterka stöðu um allan heim, ekki síst í Bandaríkjunum og hefur á síðasta áratug ráðist í miklar fjárfestingar, m.a. með kaupum á einu besta vínhúsi Pouilly-Fuissé, Domaine Feirret og Chateau de Jacques í Moulin-á-Vent. En meira um það síðar.

Deila.