Altano Reserva 2015

Symington-fjölskyldan hefur lengi verið ein af meginstoðum víngerðarinnar í Douro-dalnum og stjórnar þekktum portvínshúsum á borð við Graham’s og Taylor’s. Líkt og margir aðrir portvínsframleiðendur hafa Symingtonarnir í auknum mæli horft til framleiðslu á hefðbundnum rauðvínum og hvítvínum úr þrúgum svæðisins og eru vínin frá Symington nú komin í fremstu röð léttvína frá Douro.

Altano Reserva er rauðvín þar sem portúgalska þrúgan Touriga Nacional er í aðalhlutverki en hún er einmitt eitt helsta leynivopn Portúgala, mögnuð þrúga sem gefur af sér frábær vín þegar vandað er til verks eins og hér er gert. Þetta er 2015 árgangur en vínið er enn mjög ungt og rétt að byrja, rauðblátt á lit, öflug angan af sætum bláberjum og sólberjum, á mörkum þess að fara út í þurrkaða ávexti á borð við rúsínur, sæt eik með vanillutónum, vínið hefur rennilega áferð, þarna er kraftur og afl, hörku tannín en vínið hefur engu að síður góða mýkt, fín sýra. Vín sem gjarnan má umhella.

90%

2.599 krónur. Frábær kaup. Magnað vín fyrir peninginn.

  • 9
Deila.