Jólabjórarnir 2018: Hverjir bera af?

Það er líklega óhætt að segja að jóladagatal bjóráhugamanna byrji að tikka 15. nóvember en þann dag er hefð fyrir því að hefja sölu jólabjóranna í vínbúðunum. Og líklega hafa tilhlökkunarefnin aldrei verið fleiri, úrval jólabjóra fyrir þessi jól er fjölbreyttara og meira en við höfum áður séð. Í fyrra töldum við eiginlega tilgangslítið að halda hefðbundið smakk á jólabjórum þar sem að úrvalið var að mestu leyti keimlíkt því sem það hafði verið og í sannleika sagt fátt um fína og spennandi drætti.

Það var annað upp á teningnum í ár. Bjórsmakkhópur Vínóteksins smakkaði sig á dögunum í gegnum flesta þá jólabjóra sem nú eru í boði, þegar upp var staðið voru bjórarnir orðnir um fjörutíu sem farið var í gegnum. Smakkið fór að þessu sinni fram á Session Craft Bar í Bankastræti sem er einn af þeim metnaðarfullu bjórstöðum sem skotið hafa upp kollinum á þessu ári. Smakkhópinn skipuðu Guðbjörg Þorsteinsdóttir, Haukur Heiðar Leifsson, Svala Lind Ægisdóttir, Jenny Hildur Jónsdóttir, Steinn Stefánsson og Steingrímur Sigurgeirsson. Allir bjórarnir voru smakkaðir blint, það er að segja einungis einn í hópnum vissi hvað var verið að smakka hverju sinni nema hvað að þeim var raðað eftir þyngd, byrjað á léttari bjórum og haldið áfram yfir í þyngri, dekkri og áfengismeiri bjóra. Auðvitað áttu bjórarnir miserfitt með að „fela sig“, það er til dæmis ekki auðvelt fyrir dökkfjólubláan bláberjaskyrsbjór að villa á sér heimildir. Þegar hulunni var svipt af röð bjóranna var engu að síður eins og alltaf ýmislegt sem kom á óvart.

Ef við byrjum á hefðbundnu neyslubjórunum sem eru í flestum tilvikum snerting hins almenna neytanda við heim jólabjóranna þá voru þar inná milli alveg þokkalegir lagerar, þar sem „jólin“ virðast aðallega felast í því að þeir eru ögn dökkari en hinir dags daglegu félagar þeirra, sem segja má að sé danski jólabjórsstíllin. Frá íslensku brugghúsunum reyndist það vera Jóla Thule sem að þessu sinni koma hvað best út, ágætlega maltaður og sólíd, bjór sem nýtur sín best ískaldur af krana. Tuborg julebryg er auðvitað prótótýpa af dönskum jólabjór og stóð fyrir sínu en hins vegar var það mat hópsins að Okkar bjór frá færeyingunum í  Föroya brugghús hefði skotið þeim ref fyrir rass þetta árið sem „strangheiðarlegasti“ jólabjórinn. Samuel Adam‘s Winter Ale heillaði suma og allir á því að þar væri á ferðinni mjög vel bruggaður bjór.  Jólakaldi var á miðju róli eða tæplega það en nokkrir bjóranna voru nánast skotnir í kaf nefnilega risarnir tveir Jóla Gull og Jóla Viking, sömuleiðis Einstök White Winter Ale og nýliðinn Segull frá Siglufirði lenti einnig í þeim hópi.

Þegar við færðum okkur yfir í ögn bragðmeiri bjóra komu hins vegar nokkrir bjórar frá stóru brugghúsunum mun betur út. Jólabock frá Viking hefur verið sveiflukenndur í gæðum á milli ára en þetta árið er þetta hörkufínn Bock, karamella og allt að því belgískir tónar, í sætara lagi fyrir suma en með hörkuboddí og almennt mat að þetta væri mjög vel gerður bjór. Danirnir í Nörrebro eru líka með mjög fínan jólabjór í ár, engifer og jólabakstur, spennandi bjór þar sem mikið er að gerast. Askasleikir frá Borg er milt og ferskt rauðöl, hveitiangan, ekki mikið um að vera en ferskt og þægilegt,

Fyrir þá sem eru að leita að dekkri, möltuðum bjórum eru nokkrir í boði. Heims um bjór frá Ölvisholti er ágætlega gerður, svolítið sætur. Malt frá Egils hefur stundum komið skelfilega út í þessum smökkunum, hann er hins vegar ekki nærri eins sætur og væminn og á fyrri árum, neysluhæfur en ekkert afskaplega spennandi. Boli Doppelbock frá sama brugghúsi er betri kostur fyrir þá sem vilja bjór í töluvert möltuðum stíl.

Merry Christmas frá Anchor Brewery í San Francisco kom sterkur inn, þægilegur, vel balanseraður bjór, kandís, og mynta, fyllir ákveðna kríteríur um bæði „jólabjór“ og „góðan bjór“.  Bah Humbug Christmas Cheer frá Bretunum í Wychwood Brewery er annar milliþungur.  Sæt angan, kandís, kóla, barley-lykt, en léttur. Áhugaverður, en mætti vera meiri í endann

Og siðan eru það bjórarnir þar sem alls konar brögðum er bætt við. Engifer skaut aftur og aftur upp kollinum. Hvað hreinast er engiferbragðið í Blessaður frá Steðja, jafnt í lykt sem bragði er hreinn og tær engiferkeimur, kannski óþarflega beiskur í lokin en vel gerður bjór. Piparkökur og engifer eru líka mjög áberandi í Ósló Brewing Red and Wheat Christmas. „Eins og „safi frá Sollu í Grænum kosti“ varð einni í panelnum að orði,  við klóruðum okkur aðeins í hausnum yfir stílnum, hann er svolítið wit-legur, heilt yfir hinn frambærilegasti bjór. Ginger Brett IPA frá Mikkeller er léttastur og ferskastur af „engiferbjórunum“, ferskur og mjög bitter, fínn bjór.

En það er ekki bara engifer í boði. Rúdolf frá Viking er bruggaður með heslihnetum og þar voru skiptar skoðanir, allt frá skemmtilegri kakó og hnetulykt yfir í fúkkalykt. Bjórinn gefur töluvert eftir í bragði og fellur svolítið um sjálfan sig, skemmtileg hugmynd en útfærslan gengur ekki upp. Súkkulaði Porter frá Kalda er mjög mildur í nefi, engar flugeldasýningar eða „wow“ en vel gerður og „sólíd“ porter sem stendur við það sem hann lofar, ögn meira kaffi eða súkkulaði og hann væri að gera meira.

Það vantar ekki súkkulaði í 24 frá Ölvisholti, þar er líka mikil jörð, út í pokamold, „heitur“ var lýsingarorð sem kom ítrekað upp. Þungt malt og humlar.

Einn bjór bar hins vegar af þegar hingað var komið. Hann heitir Leppur og er kaffi stout frá einu af yngstu bjórhúsum landsins, Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Áberandi kaffiilmur og kryddaður, magnaður bjór, örlítið beiskur en ekki ýtinn, flæðir vel á milli bragða. Einn besti jólabjórinn í ár!

Mjög ólíkur í stílnum en einnig áberandi góður er Jóla Huml frá Viking. Stílhreinn og flottur IPA þar sem humlarnir gefa smá grenikeim. Náði ekki eins hátt og Leppur en var engu að síður einn af þeim bjórum sem hæst komust þegar upp var staðið í sínum flokki.

Það eru líka nokkrir enn stærri og meiri bjórar hvort sem það eru barley wine eða bjórar í belgískum eða IPA-stílnum á kreiki um þessi jól.

Hoppy Lovin Christmas frá Mikkeller skoraði nokkuð hátt, eins og fyrri ár, mjög vel gerður, mjög þurr, balanseraður og flottur. Sker í gegn. Þegar Jólakisi frá Malbygg kom á borðið fóru hins vegar að heyrast lýsingarorð eins og „geggjaður bjór“ og „framúrskarandi“. Þetta er líka ekki bara góður bjór, þetta er frábær bjór, einstaklega vel útfærður og bruggaður og það er ekki spurning um að þetta er  einn af bestu bjórunum sem eru í boði í ár, jafnvel með þeim bestu sem hafa verið í boði nokkurn tímann.

Giljagaur frá Borg er síðan bjór sem hefur átt hæðir og lægðir. Hann var fyrir nokkrum árum jólabjór ársins hjá okkur en síðan hafa komið ár þar sem hann hefur algjörlega fallið kylliflatur. Það er eiginlega þannig ár í ár. Sumum fannst hann á mörkum þess að vera boðlegur.

Borg fer hins vegar á flug þegar kemur að Skyrjarmi, hinum eiginlega jólabjór Borgar, bjór bruggaður með skyri og bláberjum. Liturinn einstakur og já hann lyktar eins og ber, rifsber, bláber en líka þurkkaðir heybaggar. Sýrumikill, mysulegur, einhver besti berjasúrbjór sem smakkarar töldu sig hafa fengið, léttur í áfengi en mikill bjór. Haft var á orði að það væru bjórar sem þessi sem sýndu fram á að Borg væri enn í fremstu röð þegar kæmi að nýsköpun í íslenskri bjórgerð.

Santa Gose frá To öl var annar súrbjór, frábærlega gerður, þótt súrbjórsstíllinn væri ekki að heilla alla. Hérna eru það hins vegar meira suðrænir ávextir, ástaraldin, mangó og sítrus, sýrumikill og smá  mysutilfinning og selta.

Belgar eru mikil bjórþjóð og þeir áttu nokkra fulltrúa sem allir stóðu sig mjög vel. Corsendork Christmas Ale, með mikið súkkulaði, þungur, sætur, en mjög balanseraður og flottur, klassi yfir honum, einn af betri bjórum smökkunarinnra. Gouden Carolus Christmas með miklu anis í lyktinni, malt undir, „skólajógúrtið gamla með lakkrísbragði“ sagði ein, nokkuð skiptar skoðanir voru um Carolus, mjög sætur belgi, pínu heitur líka. Niðurstaðan vel gerður „Belgi af gamla skólanum“. Besti Belginn og einn allra besti jólabjórinn í ár reyndist hins vegar vera Delirium Christmas, mikið kandís og malt í nefi, klassískur og „drulluvelgerður bjór“ sem þarf belgmikið glas. Unaðslega góður bjór, lítið af esterum og enginn hiti miðað við hvað hann er stór.

Loks verður að nefna tvo bjóra sem eru eiginlega í flokki út af fyrir sig. Þeir komu frá einu af nýju íslensku brugghúsunum, RVK Brewing og eru óhugnanlega flottir.  Eitthvað fallegt er bruggaður með heilu grenitré og greni leynir sér ekki í nefinu, líka smá mandarína og einhver nefndi lifrapylsu. Aukabrögðin fara hins vegar aldrei yfir strikið. Svaðalegur bjór. Það á líka við um Ákaflega gaman þá, sem líklega er einhver besti double-IPA sem bruggaður hefur verið á Íslandi. Þungur með töluverðum humlabruna sem líklega á eftir að mildast á næstu dögum og vikum. Sumum fannst á mörkum þess að vera „of mikill“, aðrir áttu ekki til orð yfir hvað hann er flottur. Hér var panelinn svolítið kynskiptur í afstöðu sinni, þar sem karlahlutinn var í nirvana en kvensmakkarar sögðu hann flottann en aðeins „yfir strikið“.

Niðurstaða smökkunarinnar? Panellinn var sammála um að Leppur frá Brothers væri bjór ársins í hópi léttari bjóra og að Jóla Huml frá Viking væri afburðabjór í flokki léttari, ljósra bjóra. Þegar kemur að „stærri“ bjórum var niðurstaðan líka skýr. Jólakisi og Delirium Christmas eru jólabjórarnir í ár.

Fyrir þau fimm prósent þjóðarinnar sem myndu flokkast sem „bjórnördar“ er Skyrgámur frá Borg ómissandi og síðast en ekki síst Eitthvað fallegt og Ákaflega gaman þá frá RVK Brewing. Þvílíkir bjórar.

 

Deila.