Quinta do Crasto er eitt af bestu vínhúsum Douro-dalsins í Portúgal. Það á sér langa sögu en hefur undanfarna þrjá áratugi verið í eigu Roquette-fjölskyldunnar sem hefur auk portvína lagt áherslu á framleiðslu á frábærum borðvínum. Flor de Crasto er er eitt af grunnvínunum, en þvílíkt vín fyrir peninginn, þar sem portúgölsku þrúgurnar Touriga Franca og Touriga Nacional eru notaðar ásamt hinni íberísku Tinta Roriz sem flestir þekkja líklega undir spænska heitinu Tempranillo.
Vínið er ungt, liturinn glampandi dökkfjólublár og berjaangan vínsins er ágeng og opin, sæt og þroskuð kirsuber í bland við skógarber og blóm, fjóluvönd, mjúkt og þykkt í munni, seiðandi vín.
2.299 krónur. Frábær kaup, stórkostlegt vín fyrir þetta verð. Með purusteikinni.
-
9