Áramótabomba frá RVK Brewing

Kosmós, nýr áramótabjór frá RVK Brewing mætir í verslanir ÁTVR í dag. Það virðist vera að færast í aukana að senda frá sér áramótabjóra en nýlega sögðum við frá Áramótastaupinu sem var samvinnuverkefni Borg Brugghús og Malbygg.

Núna er komið að RVK Brewing sem sendir frá sér sannkallaðan hátíðarbjór. Kosmós heitir að nafninu „Imperial Grisette“ en í sögulegu samhengi á Grisette rætur í Belgíu og svipar mjög til Saison en var oftast léttari, með meira hveiti og með ögn meiri humlakarakter. Lítið er þó vitað um sannar rætur stílsins. RVK Brewing taka því þetta hugtak og beygja það um þvert með því að gera „Imperial“ útgáfu af þessum gamla stíl en bjórinn er langt frá því að vera léttur og er áfengismagn 9%. Einnig er notast við kirskuber og kalamansa sítrus ávöxt í Kosmós sem gefur honum fínlegan ávaxtakeim og meiri skerpu.

Þetta er afar fínlegur bjór sem lifir vel sem bjór til að opna við gott tækifæri og deila með fólki. Það er frábært að ljúka árinu á bjór í belgískum „farmhouse“-stíl eftir að hafa drukkið skýjaða IPA bjóra nánast allt árið.

Upplag er afar takmarkað og því mælum við með að gera sér ferð eftir honum strax í dag.

Deila.