Indverskur kóríander- og sítrónukjúklingur

Indverska eldhúsið býður upp á óteljandi leiðir til að gera gómsætar og spennandi máltíðir úr kjúklingi. Hér eru það fyrst og fremst sítróna og kóríander sem að gefa tóninn þó auðvitað séu fjölmörg önnur krydd í réttinum. Uppskriftina fundum við upphaflega í einni af bókum Madhur Jaffrey en hún hefur verið aðlöguð með tímanum.

Fyrir 4

 • 8 kjúklingalæri á beini
 • 2 búnt ferskur kóríander
 • ca 100 g engiferrót
 • 6-8 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
 • 1 grænn chilibelgur, saxaður fínt (fræhreinsið fyrst til að hafa minna heitt)
 • safi úr einni sítrónu
 • olía

kryddblanda

 • 2 tsk cumin
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk mulinn kóríander
 • 1/tsk cayennepipar
 • 1 tsk salt

Aðferð

Byrjið á því að saxa niður engiferrótina. Maukið síðan í matvinnsluvél ásamt um 1 dl af vatni. Geymið.

Takið saman kryddin í kryddblönduna. Gott er að setja þau í t.d. lítinn kaffibolla og hafa tilbúin.

Best er að elda réttinn annað hvort á stórri þykkri pönnu eða pottjárnspotti. Hitið olíu á pönnunni og brúnið kjúklingalærin. Setjið í skál og geymið.

Setjið næst hvítlaukinn í sömu olíu og þið steiktuð kjúklinginn í. Um leið og hann fer að dökkna er engifermaukinu hrært saman við. Steikið í 1-2 mínútur og hrærið þá kryddblöndunni saman við. Strax í kjölfarið er chili og söxuðu kóríander bætt saman við. Hrærið vel saman og steikið í 1-2 mínútur. Þá fara kjúklingabitarnir aftur á pönnuna ásamt vökvanum sem hefur lekið af þeim. Hellið nú sítrónusafanum og um desilítra af vatni á pönnuna. Látið malla undir loki á vægum hita í um korter, snúið  þá bitunum við og látið malla áfram í um 10 mínútur. Takið nú lokið af og látið malla í einhverjar mínútur til viðbótar eða þar til að sósan hefur þykknað og kjúklingurinn er fulleldaður.

Meðlæti með:

Indversk kryddgrjón

Blómkál og kartöflur að hætti Norður-Indverja

Hvítlauks Naan með kóríander

Kóríander Raita

Ferskt og fínt Chardonnay frá Chile smellur fullkomlega að þessum rétti.

Fleiri indverskar uppskriftir sjáið þið með því að smella hér. 

 

Deila.