VÍN 101: Ítalía- vagga vínmenningarinnar

Ítalía er vagga vínmenningarinnar og í senn óendanlega heillandi og kaótísk. Þótt ítölsku vínin hafi lengi þurft að dvelja í skugga þeirra frönsku og ekki verið umvafin sama frægðarljóma þá er vínið hvergi jafnríkur hluti af menningunni og á Ítalíu.  Vínviðurinn var svo útbreiddur í Suður-Ítaliu að Grikkir nefndu svæðið sem í dag er Púglía, Kalabría og Sikiley sem Oenotria eða Vínland. Rómverjar dreifðu vínmenningunni hvert sem þeir komu og þróuðu jafnframt fram margar af grunnaðferðum víngerðarinnar, s.s. tunnugerjun og átöppun á flöskur.

En hvernig stendur á því að ítölsku vínin hafa ekki skipað sama sess og þau frönsku, þó svo að líklega séu nær hvergi í heiminum jafn fjölbreyttar og góðar aðstæður til vínræktar, frá nyrstu alpahéruðunum til suðurhluta Sikileyjar. Það má heldur ekki gleyma því að „Ítalía“ er ekkert afskaplega gömul. Öldum saman var hún ekki eitt ríki heldur mörg. Í gegnum söguna hafa aðalsfjölskyldur skipt landinu á milli sín sem og Vatíkanið og önnur ríki, ekki síst Frakkar og Austurríki. Það var ekki fyrr en 1861 sem að Garibaldi sameinaði Ítalíu og ekki fyrr en að lokinni síðari heimsstyrjöldinni er þjóðin komst undan oki fasismans sem að ítalska lýðveldið var stofnað.

Allt hefur þetta auðvitað háð alþjóðlegri sókn ítalskra vína. Ítalía á engin vínhéruð sem hafa sigrað heiminn í þeim skilningi að vín þeirra eru fyrirmynd vínstíla um allan heim líkt og raunin er með þau frönsku. Ítalía var til skamms tíma mjög fátækt ríki og bændur lögðu meira upp úr því að framleiða mikið magn fyrir heimamarkaðinn en hágæða vín til útflutnings. Stóru frönsku vínin byggðu ekki síst á breska markaðinum þar sem þar sem hefðarfólk neytti vína frá Bordeaux, Bourgogne og Champagne að ekki sé nú minnst á sérrí og portvín.

Ítalír áttu enga slíka markaði, hvorki heimafyrir né erlendis. Á síðari hluta síðustu aldar fór það að breytast. Ítalska matargerðin fór að breiða úr sér, ekki síst í Bandaríkjunum þangað sem að milljónir Ítala, ekki síst frá suðurhluta landsins fluttu í leit að betra lífi. Ítölsku vínin eru auðvitað samofin ítölsku matargerðinni og þótt lengi vel hafi það fyrst og fremst verið ódýr Chianti í fiaschi-flöskum, Lambrusco, Valpolicella, Frascati og Soave-vín sem tengd voru við Ítalíu fór það smátt og smátt að breytast. Áhuginn á ítalskri matar- og vínmenningu fer sífellt vaxandi og þegar að vínmiðlar á borð við Wine Advocate og Wine Spectator fóru að hafa mikil áhrif á vínneyslu myndaðist dauðafæri fyrir ítalska framleiðendur. Ítalía hefur nefnilega upp á svo margt að bjóða.

Eitt af megineinkennum ítalskra vína er hinn gífurlegi fjölbreytileiki sem stundum verður svolítið kaótískur. Ítalir eru ekki mikið fyrir að fylgja reglum og DOC-kerfið sem átti að koma böndum á hlutina með svipuðum hætti og franska AOC-kerfið hefur aldrei virkað sem skyldi.

Vínstílar Ítalíu eru jafn ólíkir, einstakir, heillandi og unaðslegir og Ítalía sjálf. Í alpahéruðunum Trentino og Alto Adige eru ræktuð ferskt og titrandi hvítvín. Í Piedmont eru framleidd ótrúleg rauðvín úr þrúgunni Nebbiolo  á svæðunum Barolo og Barbaresco og ekrur eru skilgreindar niður í minnstu frumeindir – með svipuðum hætti og í Búrgund. Þessi vín urðu sannkallaðar stórstjörnur fyrir tilstilli ekki síst Angelo Gaja og hóps framsækinna framleiðenda sem stundum hafa verið nefndir Barolo Boys, eftir að það hugtak var notað í grein í New York Times árið 1990, framleiðendur á borð við Sandrone, Altare, Selvaggio og Boschis.

Í Veneto í kringum Verona er að finna einstakan vínstíl – Amarone – þar sem þrúgurnar eru vindþurrkaðar að lokinni tínslu áður en víngerjunin á sér stað.

Og getur einhver bent á betri matarvín en þau frá Toskana? Þegar vel tekst til með Sangiovese-þrúguna eru fá vín sem smella betur að góðri steik, pasta eða nánast hverju sem er. Hvort sem að vínin eru frá Chianti Classico, Montalcino eða Montepulciano. Það vantar heldur ekki ofurvínin úr sveitum Toskana sem fylgja ekki klassískum formúlum DOC-kerfisins,  t.d. Tignanello, Cepparello, Sassicaia, Solaia, Ornellaia, Siepi eða L‘Apparita og Redigaffi

Á Suður-Ítalíu magnar heit sólin upp bragð þrúgna á borð við Primitivo og Nero d’Avola. Vínin þaðan voru lengi afskaplega óspennandi en eru smám saman að færast ofar upp gæðastigan og bestu vínin eru að verða þvílíkir risar að það hálfa væri nóg. Einnig er þar að finna einstakar þrúgur á borð við Aglianico sem er með þeim vanmetnari á Ítalíu. Frábær þegar best lætur, hvort sem er frá ekrunum við eldfjallið Vulture í Basilicata eða þá Taurasi-vínin frá Kampaníu.

Og ekki eru hvítvínin síðri. Einhver bestu hvítvín sem hægt er að hugsa sér koma t.d. frá Friuli frá framleiðendeum á borð við Vie di Romans og Jehrman. Svæðin Soave og Alto Adige eiga líka sína frábæru fulltrúa og við austurströndina í Marche nær þrúgan Verdicchio stundum svakalegum hæðum, vín sem þroskast með svipuðum hætti og bestu Chardonnay-vín Bourgogne.

Suðrið er síðan eitt magnaðasta tromp Ítalíu í hvítvínum. Fiano d’Avellino vínin frá Kampaníu eða Greco di Tufo. Og svo Sikileyjarþrúgurnar Grillo, Cataratto og Grecanico.

Allar þrúgur eru ekki ítalskar. Chardonnay kemur að sjálfsögðu víða við sögu og Sauvignon Blanc. Þannig gnæfir Chardonnay-vínið Cervaro della Sala yfir önnur vín svæðisins sem eru flokkuð sem Orvieto og sum af bestu vínum Friuli eru gerð úr Sauvignon Blanc.

Freyðivín Ítalíu eru kannski ekki jafnþekkt og virt og þau frá Champagne í Frakklandi. Ítalir eru hins vegar snillingar í að gera aðgengileg og vín freyðivín, t.d. úr þrúgunni Prosecco þar sem kolsýrugerjunin á sér stað í stórum tönkum en ekki í flöskunni. Mörg af  bestu freyðivínum landsins nota hins vegar „kampavínsaðferðina“, svo sem þau frá Franciacorta og Ferrari-vínin frá Trento.

Rétt eins og ítalska matargerðin er einfaldari en sú franska eru ítölsku vínin ekki eins uppskrúfuð og þau bestu frönsku. Vínin frá Ítalíu eru hins vegar svo full af ítalskri lífsgleði að það er ekki annað hægt en að falla fyrir þeim og elska þau.

Sjáðu allar greinarnar í vínnámskeiðinu VÍN 101

Sjáðu fleiri greinar um Ítalíu, ítölsk vín og matargerð

Deila.