Aresti Trisquel Gran Reserva Sauvignon Blanc 2020

Leyda er nafn sem hefur heyrst æ oftar síðustu árin í tengslum við víngerð í Chile. Vínhúsin þar í landi eru í stöðugri leit að nýjum og spennandi ræktunarsvæðum er auka breiddina í víngerð landsins. Ekki síst hefur þessi leit snúið að því að finna svöl svæði, annað hvort hátt uppí hæðum eða nálægt hinum köldu hafstraumum Kyrrahafsins. Leyda fellur í síðari flokkinn, ekrur héraðsins eru einungis í um fimm kílómetra fjarlægð frá Kyrrahafinu, ræktunartíminn er lengri en á heitari svæðum og þarna eru kjöraðstæður ekki síst fyrir Pinot Noir og Sauvignon Blanc.

Aresti er gamalgróið fjölskylduvínhús sem upphaflega var stofnað í Curico af Vicenti Aresti Astica og tóku dætur hans Begona og Ana Maria við rekstrinum er faðir þeirra féll frá. Þær hafa meðal annars fært út kvíarnat til Leyda. Sauvignon Blanc-vínið er af árgerðinni 2020 þannig að það eru komin tvö ár frá uppskeru. Vínið er ljósgult, nefið þétt með sætum límónuberki, ferskjum og kívi en jafnframt grösugt, smá grænn aspars. Góð sýra veitir fínan ferskleika, ávöxturinn er þykkur með mildri beiskju. Fínt matarvín.

90%

2.989 krónur. Frábær kaup. Með austurlenskum mat. Sem fordrykkur.

  • 9
Deila.