Vina Ardanza 2015

Vina Ardanza frá La Rioja Alta er eitt af bestu vínum Rioja héraðsins á Spáni, gert úr Tempranillo-þrúgum (78% í þessum árgangi) frá undirsvæðunum Cenicero og Fuenmayor í Rioja Alta. Þá eru notaðar Garnacha-þrúgur frá Tudelilla. Vínviðurinn í báðum tilvikum er gamall eða um 30 ára að jafnaði.

Árgangurinn 2015 var prýðisgóður í Rioja. Sumarið var heitt og þurrt og uppskera í héraðinu sögulega snemma, um miðjan október hjá Ardanza,  vínin heilt yfir kröftug og mikil.

Eikin setur sinn svip á vínið enda var Tempranillo-vínið í 4 ár á tunnum úr amerískri eik og Garnacha-vínið lítið skemur áður en víninu var tappað á flösku í september 2019. Liturinn er dökkur, djúprauður og þéttur og í nefi tekur á móti manni sæt vanilla og kókos, dimmrautt berjahlaup og krydd, nýrifinn múskathneta. Strúktúrinn er þéttur, tannín kröftug, áferðin þurr, fersk, vínið langt og djúpt. Umhellið tímanlega ef þið ætlið að neyta þess núna og hikið ekki við að geyma, þess vegna 5-10 ár.

100%

4.999 krónur. Frábær kaup. Umhellið. Þolir vel geymslu í nokkur ár. Með vel hanginni nautasteik.

  • 10
Deila.