Hallveig bloggar: Baka með kartöflum, blaðlauk og feta

Ég er afskaplega hrifin af bökum og þegar ég veit ekki hvað ég á að elda gríp ég stundum í að skoða hvað er til í skápnum og skelli í eina. Bökudeigið er fljótgert, en passa þarf að það þarf að vera í að minnsta kosti klukkutíma í ísskáp áður en það er flatt út. Athugið að þetta tiltekna deig þarf að blindbaka, en það þýðir að áður en hægt er að setja fyllinguna í, er botninn bakaður með einhverskonar fargi, oftast þurrkuðum baunum, svo sem kjúklingabaunum. Hægt er að margnota baunirnar í þessum tilgangi og geyma á milli.

Bökur eru svo yfirleitt betri nær stofuhita, svo það er gott að gera þær með fyrra fallinu svo þær hafi tíma til að setjast almennilega og taka úr sér mesta hitann.

Í þetta sinn gerði ég böku með kartöflum, blaðlauk og feta, því það var það sem ég átti í skápnum. Hún heppnaðist svo vel að ég ákvað að henda henni þar inn.

Til þess að öruggt sé að kartöflurnar séu fulleldaðar, sker ég þær í sneiðar og baka í ofninum í 20 mínútur áður en þær eru notaðar í bökuna, það er líka góð leið til að ná inn bragði í fyllinguna. Í þetta sinn velti ég þeim upp úr ólífuolíu, salti, pipar og smá paprikudufti.

En hér kemur uppskriftin:

Baka með kartöflum, blaðlauk og feta:

Bökudeig:

  • 150 gr kalt smjör, skorið í teninga
  • 150 gr hveiti
  • ½ tsk salt
  • ísvatn eftir þörfum

setjið hveiti og salt í matvinnsluvél og púlsið nokkrum sinnum. Bætið þá smjörinu í og púlsið þar til deigið eru litlir kögglar, svipaðir af stærð og nýrnabaunir. Setjið þá 1 msk í einu af ísvatni (þarf ca 2-4 skeiðar) þar til deigið hefur bundist saman í sléttan köggul.

mótið kúlu úr deiginu, vefjið í plastfilmu og geymið í ísskáp í að minnsta kosti klukkutíma, má vera allt upp í sólarhring.

Fyllingin:

  • 6-7 meðalstórar kartöflur, skornar í 1 cm sneiðar
  • 1 stór blaðlaukur, hvíti og ljósgræni hlutinn, hreinsaður og skorinn í sneiðar
  • 3 hvítlauksrif
  • 4 egg
  • 125 ml rjómi
  • 100 ml mjólk
  • 50 gr fetaostur
  • salt og nýmalaður pipar
  • 1 tsk paprikuduft
  • chiliflögur á hnífsoddi

Aðferð:

veltið kartöflusneiðunum upp úr olíu, salti, pipar og papriku og bakið á bökunarpappír í 20 mínútur á 190° með blæstri. Á meðan kartöflurnar bakast, takið þá til bökuform (ég var með 24 cm), fletjið deigið út í hringlaga köku sem ca 15 cm breiðari en formið, og setjið svo deigið þétt ofan í formið. Skerið afgangs deigið meðfram köntunum svo deigið nái bara upp að börmunum. Setjið bökunarpappír ofan í deigið, fyllið með fargi og blindbakið í 15 mínútur, þegar kartöflurnar eru komnar út.

Á meðan botninn er að bakast, mýkið þá blaðlaukinn á lítilli pönnu við meðalhita, passið að hann brenni ekki við. Þegar hann er við það að verða tilbúinn, raspið þá hvítlaukinn saman við og steikið áfram í 1 mínútu.

Hrærið saman egg, rjóma og mjólk og kryddið með salti, pipar og chiliflögum.

Þegar botninn kemur út úr ofninum þá er kartöflunum raðað í botninn, lauknum dreift yfir og að lokum er fetaosturinn mulinn yfir í grófum bitum. Hellið svo eggjablöndunni yfir og bakið bökuna í 40-45 mínútur. Hægt er að kanna hvort hún sé tilbúin með því að hrista hana aðeins til, ef þú sérð að það hristist í miðjunni þarf bakan ögn lengri tíma.

Takið bökuna út þegar hún er tilbúin og leyfið að standa í að minnsta kosti 20 mínútur, helst hálftíma, áður en hún er borðuð.

Deila.