Hreindýrakjöt er veislumatur og hreindýrahakk gerir lasagna að veislurétti eins og þessi uppskrift Hildigunnar Rúnarsdóttur sannar.
Kjötsósa:
- 500 g hreindýrahakk
- 2 bakkar nýir sveppir (500 g í allt)
- 80 g þurrkaðir villisveppir
- 2 stórir eða 3 litlir rauðlaukar
- Smjör til steikingar
- Vatn til að bleyta upp í þurrkuðum sveppum
- Season All-krydd
- Timjan
- Óreganó
Mornay sósa:
- 90 g smjör
- 90 g hveiti
- Mjólk þar til passlega þykkt (um 750 ml)
- Rjómi (1 dl)
- Lárviðarlauf
- 400 g mildur ostur skorinn í bita
- Lasagnablöð
- Parmesanostur
- Salt og pipar
Aðferð:
Kveikið á ofninum, 200°C
Sjóðið vatn og hellið yfir þurrkuðu sveppina til að bleyta upp í þeim.
Skerið laukinn frekar smátt. Setjið á pönnu með góðum slurk af smjöri og leyfið að malla við lágan hita meðan sósan er undirbúin.
Skerið sveppina í bita og steikið í tvennu lagi í smjöri þar til vel brúnað.
Takið sveppina af pönnunni og geymið.
Brúnið hreindýrahakkið vel á sömu pönnu (má bæta við smá smjöri). Kryddið með season all, timjan og oregano.
Takið þrjár til fjórar matskeiðar af safanum af þurrkuðu sveppunum og setjið saman við hakkið og látið sjóða niður.
Bætið sveppunum við hakkið og lækkið hitann niður á lægsta. Laukurinn ætti nú að vera orðinn mjúkur og má fara saman við. Gott að saxa villisveppina smá niður ef þeir eru stórir, áður en þeim er bætt við hakkið.
Gerið venjulega Mornay sósu, baka upp smjör, hveiti með mjólk og bæta rjóma við. Setja 1 lárviðarlauf, salt og pipar eftir smekk, láta malla í 5 mínútur áður en ostinum er blandað saman við og látinn bráðna.
Raðið saman kjöt- og sveppasósu, Mornay og lasagnablöðum í lög í stórt fat. Setjið álpappír yfir og bakið í 30 mínútur, takið síðan álpappírinn af og bakið í 15 mín í viðbót.
Stráið yfir parmaosti og berið fram, með meiri parmaost til hliðar.