Kalifornía – Napa

Napa-dalurinn er tæplega fimmtíu kílómetra langur og teygir sig frá mörkum San Pablo-flóa allt inn að Mount Helena. Þetta er þröngur dalur og einungis um átta kílómetrar, þar sem hann er hvað breiðastur. Í dalbotninum má sjá jafnt tignarlegar byggingar vínfursta nítjándu aldar sem nýtískulegar glæsibyggingar nýrri fyrirtækja.  Svæðið er tiltölulega auðvelt yfirferðar og er hægt að velja á milli tveggja vega, þjóðvegar 29 annars vegar og Silverado Trail hins vegar, sem þræða dalinn allt frá Napa í dalsmynninu til bæjarins Calistoga, innst í dalnum.

Á veturna er Napa fallegt grænt svæði, þar sem gul blóm þekja ekrurnar. Sumrin eru hins vegar mjög heit og þurr og hæðirnar í kring skrælna og taka á sig hinn fölgula lit, sem er svo einkennandi fyrir landslag Norður-Kaliforníu á sumrin. Svalt loftið frá Kyrrahafinu kælir hins vegar á kvöldin og nóttunni. Töluverður munur er á loftslagi yst og innst í dalnum. Ysta svæðið heitir Los Carneros og er raunar eina svæðið sem Napa og Sonoma deila á milli sín. Carneros er svalasta svæði Napa og þar nýtur Chardonnay sín best í dalnum auk Pinot Noir. Eftir því sem innar dregur verður heitara og myndast kjöraðstæður fyrir Cabernet Sauvignon á svæðinu í kringum bæina Oakville, Rutherford og St. Helena.

Þrátt fyrir að Napa sé líklega þekktasta víngerðarsvæði Bandaríkjanna var það ekki fyrr en upp úr miðri nítjándu öldinni að Charles Krug hóf þar fyrstur raunverulega vínrækt og ekki fyrr en undir lok aldarinnar að vínframleiðsla í Napa komst á skrið. Nú eru Napa-vínin þau dýrustu, sem framleidd eru í Bandaríkjunum og oftar en ekki með þeim dýrustu sem framleidd eru nokkurs staðar í veröldinni. Land er dýrt í Napa og eftirsótt og þeir sem hyggjast hefja þar vínrækt verða því að leggja í gífurleg útgjöld áður en fyrstu þrúgurnar sjá dagsins ljós. Skýrir það hið háa verð ekki síður en afburða gæði bestu Napa-vínanna.

Deila.